fimmtudagur, desember 31, 2009

Ill nauðsyn sem löngu átti að vera búið að afgreiða

Loksins er búið að ganga frá þessu endemis máli.* Ja, nema náttúrulega að Ólafur Ragnar geri þau mistök að reyna að heilla lýðinn með því að neita að skrifa undir. Andskotinn að hann sé svo vitlaus, hann hlýtur að renna blóðið til skyldunnar að standa með gömlum félögum í þessu máli.

Ég finn samt ekki léttinn sem ég vonaðist eftir. En kvíðahnúturinn hverfur samt vonandi og þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar** hætta þessu helvítis gjammi sínu get ég hætt að bölva þeim í hvert sinn sem ég sé smettin á þeim á sjónvarpsskjánum.

Ég höndlaði ekki að horfa á þingmenn gera grein fyrir atkvæðum sínum í kvöld nema stutta stund í einu — og tók oft hljóðið af eða svissaði á aðra stöð þegar ég sá helstu flökurvaldana stíga í pontu. Það litla sem ég heyrði til þingmanna úr stjórnarflokkunum var allt á einn veg: þetta er ill nauðsyn. Einhver þeirra sagði líka: Þó fyrr hefði verið, og átti þá við að þessi atkvæðagreiðsla hefði átt að fara fram fyrir mörgum mánuðum svo hægt væri að einbeita sér að öðrum málum. En það vildi stjórnarandstaðan auðvitað ekki heldur þæfa málið og grafa undan ekki bara trúverðugleika stjórnarinnar heldur tefja hana frá nauðsynlegum verkum.

En æ, ég nenni ekki að rekja þetta frekar. Vonandi er þetta helvíti bara búið og við þurfum aldrei að heyra um þetta meir.

___
* Enda þótt ég hafi verið sátt við þessa ákvörðun þingsins þá veit ég auðvitað ekki hvort hún er sú eina rétta þó ég vilji trúa því. Það verður ekki fyrr en eftir einhver ár eða jafnvel áratugi sem við getum áttað okkur á hvað þessi leið þýðir fyrir okkur og hvort hin leiðin — að neita að borga og sjá til hvað gerist — hefði reynst betur.
** Ég þarf alltaf að hugsa mig um þegar talað er um stjórnarandstöðuna. Næstum alla mína ævi hef ég haldið með stjórnarandstæðingum og erfitt að muna að nú er það heiti notað yfir fólk sem ég fyrirlít. Og ansi nær þessi því að lýsa þeim vel: Draslið sem skolaði inn á þing.

Efnisorð: ,