föstudagur, nóvember 27, 2009

Taumhald á skepnum

Ég er ekki æst í að gagnrýna ríkisstjórnina. Held að þar sé unnið hörðum höndum að því að lágmarka skaðann af hruninu. Öllu skynsömu fólki er ljóst að það verður ekki gert án þess að undan svíði.

Stærstu mistök núverandi ríkisstjórnar tengjast bönkunum.* Ríkisstjórnin sem hrökklaðist frá völdum í búsáhaldabyltingunni hafði skipað skilanefndir yfir hræjum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka. Þær skilanefndir virðast vægast sagt hafa verið undarlega mannaðar og á fáránlegum kauptöxtum. Ríkisstjórnin núverandi hefði átt að endurmanna allar skilanefndirnar og setja strangar reglur um fjármuni sem til þeirra rynni. Að sama skapi hefði átt að hreinsa útúr bönkunum það lið sem allt frá því að fyrirtæki fóru í stórum stíl að verða gjaldþrota eða lenda í verulegum vandræðum hefur séð um að hrista af þeim skuldakuskið og rétta aftur sömu eigendum og komu þeim á kaldan klaka.

Lilja Mósesdóttir segir að „Hætta er á að ákvarðanir um afskriftir á skuldum fyrirtækja mótist af hagsmunum einstakra starfsmanna bankanna sem vilja fela mistök í útlánum fyrir hrun.“ Þetta er rétt hjá henni en hinsvegar hafa þessir bankamenn haft allt árið til að dunda sér við þessa gjörninga.

Lilja boðar betri tíð í þessum efnum (eða er það bara óskhyggja hjá henni?) og segir að fljótlega verði gripið til aðgerða til að tryggja virkt eftirlit með starfsemi bankanna.** Það að ríkisstjórnin skuli ekki tekið í taumana fyrr er óskiljanlegt og verður líklega til mikils skaða, svo ekki sé talað um hvað þetta misbýður réttlætiskennd hins almenna borgara.

Því það er ekkert réttlæti í að fólk sem átti stóran hlut í að koma efnahagslífi þjóðarinnar — og þarmeð fyrirtækja og einstaklinga — á hausinn, skuli fá að dunda sér við að hylja skítaslóðina eftir sig eða hygla einkavinum sínum og sökunautum.*** Hvað þá
á þeim launum sem þetta lið skammtar sér. Græðgishyggjan ríkir enn og það þarf að koma taumhaldi á hana og fólkið sem viðheldur henni.

Að þetta skuli ekki hafa verið stoppað strax á vormánuðum er alfarið á reikning þessarar ríkisstjórnar.
___
* Reyndar heyri ég ekki svo minnst á Árna Pál félagsmálaráðherra að mér finnist hann ekki mestu mistök ríkisstjórnarinnar. Hvað þá þegar Kristján Möller samgönguráðherra segir eitthvað, gerir eitthvað eða gerir eitthvað annað en hætta í kjördæmapoti.
** Kannski á hún við bankaumsýslufyrirbærið margboðaða sem hefur enn ekki litið dagsins ljós.
*** Viðbót: Mikið hefur svosem verið tiltekið af dæmum um þetta en Lára Hanna setur málið skilmerkilega fram í pistli 19. janúar 2010.

Efnisorð: