fimmtudagur, nóvember 05, 2009

Neyðarmóttaka vegna nauðgana á sér ekki talsmann

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir að það þarf að skera niður í heilbrigðiskerfinu eins og annarstaðar. En atlagan að Neyðarmóttökunni er sérlega alvarleg því hún á sér ekki hliðstæðu á höfuðborgarsvæðinu (ég held að enn sé opin neyðarmóttaka á FSA á Akureyri) og því ekki í nein önnur hús að venda. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fjallar um Neyðarmóttökuna í bók sinni Á mannamáli og hún segir þetta:

„Í lok febrúar 2009 var öllum hjúkrunarfæðingum Neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi sagt upp störfum, sem afleiðing niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu. Ætlunin var að sameina bráðamóttökur Landspítala og voru uppsagnir hjúkrunarfræðinganna á Neyðarmóttökunni liður í því ferli. Hjúkrunarráð Landspítalans sendi frá sér ályktun og lýsti yfir „miklum áhyggjum vegna þessara fyrirhuguðu breytinga og telur hætt við að þeim árangri sem náðst hefur í meðferð ákveðinna hópa sjúklinga sé ógnað, verði þær að veruleika.“

Upprunalegt skipulag Neyðarmóttökunnar var að sérþjálfað teymi lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa tæki á móti brotaþolum og veittu þeim líkamlega og andlega aðhlynningu í kjölfar nauðgunar. Félagsráðgjöfunum var sagt upp í niðurskurði árið 2004 og þá áttu hjúkrunarfræðingarnir að taka við starfi þeirra, sem gerði enn frekari kröfur til sérhæfingar þeirra. Með uppsögnum hjúkrunarfræðinganna átti hlutverk þeirra að færast sem hver annar verkþáttur yfir til almennra hjúkrunarfræðinga á Slysa-og bráðadeild. Flestir þeirra hjúkrunarfræðinga sem sagt var upp höfðu starfað á bakvöktum á Neyðarmóttökunni frá upphafi. Við þetta tækifæri benti Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, á að líkamlegir áverkar eftir nauðgun séu oft lítilfjörlegir í samanburði við það andlega áfall sem nauðgunin valdi. „Mér finnst afleitt að þarna tapist ómetanleg reynsla hjúkrunarfræðinga sem hafa skilning á einmitt þessu, og þarna taki yfir fólk sem er annars í störfum sínum að einblína á líkamlegt ástand.“ Guðrún sagði lítið standa eftir af upphaflegu hugmyndinni með Neyðarmóttöku vegna nauðgana og þarna væri sannarlega gróflega að henni vegið. Uppsagnir allra hjúkrunarfræðinga Neyðarmóttökunnar spara 10-20 milljónir á ári (eða 25-50% af þeirri fjárhæð sem fór í nokkurra daga ferðalag menntamálaráðherra á handboltaleiki á Ólympíuleikunum í Kína árið 2008).“


Við þetta má bæta þeim upplýsingum, sem einnig eru fengnar úr Á mannamáli, að á tímabilinu 2002 til 2006 leituðu 472 einstaklingar á Neyðarmóttökuna í Fossvogi og 67 á Neyðarmóttökuna á Akureyri.

Talsmenn ýmissa stéttarfélaga og hagsmunahópa hafa kvartað í fjölmiðlum undan niðurskurði og kjaraskerðingum, allt frá kvikmyndagerðamönnum til lögreglunnar. En konur (karlar og börn) sem þurfa að fara á Neyðarmóttökuna eiga sér engan talsmann. Það eru ekki til samtök kvenna sem á eftir að nauðga.

Því hafa nú hafa kvennasamtök og facebook hópar — undir forystu hinnar skeleggu Þórdísar Elvu — risið upp neyðarmóttökunni til varnar. Og ég legg hér með* mitt af mörkum: Vinsamlega takk ekki leggja niður þessa nauðsynlegu þjónustu við konur (karla og börn) í neyð. Heilbrigðiskerfi er ekki bara steinsteypa.**

___
* Ég hef leitað logandi ljósi að því sem ég hélt að ég hlyti að hafa skrifað um málefni Neyðarmóttökunnar í febrúar. Finn ekkert. Var mér þá alveg sama þegar ég heyrði þetta fyrst, eða vissi ég ekkert um þetta? Mig rámar reyndar í að ég hafi einhverntímann hugsað eitthvað á þá leið að það væri ekkert verið að loka og allt þetta starfsfólk væri enn innan Landspítalans og hægt að kalla í það með stuttum fyrirvara, og því hafi ég ekki sagt neitt við fréttum um niðurskurð. Því aðrir bloggarar skrifuðu um niðurskurðinn. En þó ég hafi ekki þá sagt neitt þá a.m.k. tók ég við mér núna.

** Ef það á að byggja á Landspítalalóðinni og færa alla starfsemi þangað og loka Borgarspítalanum á annað borð — er þá ekki hægt að nota Borgarspítalann sem fangelsi? Þarf örugglega litlu að breyta, eldhús á staðnum, salerni við öll herbergi o.s.frv. Meira segja þyrlupallur svo auðveldara sé að flýja ...

Efnisorð: , , ,