miðvikudagur, ágúst 26, 2009

Lögreglugrátkórinn

Mér til mikillar furðu hefur ekkert verið rætt við lögreglumenn í fjölmiðlum dagsins, né hafa þeir skrifað greinar sem fjalla um hörmulegar aðstæður þeirra. Í gær heyrðist heldur ekkert í löggunni. Við erum að tala um tvo heila daga þar sem þjóðin fer á mis við kjökrandi löggur að kvarta undan vöktunum, laununum, hvað þær séu fáar og hvað allir ætlist nú til mikils af þeim. Ég verð nú að segja að mér finnst þetta engin framkoma. Hvað veit ég um hve bágt löggan á ef mér er ekki sagt það daglega?

Lögreglukórinn er örugglega ekki eins hávær og þessi grátkór.

Nánast allar stéttir vinnandi fólks (svo ekki sé nú talað um atvinnulausa og aðra bótaþega, sjá ofurlanga færslu mína í gær) þurfa að draga saman seglin, herða sultarólina og gera sér grein fyrir að ástandi fer versnandi en ekki batnandi.* Sumar stéttir — með verkalýðsfélög í broddi fylkingar — hafa haft sig nokkuð frammi til að leggja áherslu á að þeirra fólk megi ekki taka á sig kjaraskerðingu, en flestar held ég að átti sig á ástandinu og sjái ekki ástæðu til að skrifa greinar í blöð og láta taka við félagsmenn fjölda viðtala til að sýna fram á hve starf sitt sé meira virði en allra annarra í samfélaginu.

En málið er auðvitað, og það veit löggan, að það er mikill hljómgrunnur fyrir baráttu hennar. Ríkisvald, fasteignaeigendur, verslunareigendur; öll þessi fyrirbæri og fleiri til treysta mjög á lögregluna. Það sást vel þegar hústökufólk lagði undir sig niðurnídda húseign á Vatnsstíg, hver ræður för. Húseigandinn tók upp símtólið og löggan mætti á staðinn til að rýma húsið. Það gekk ekki eins vel þegar fjöldi fólks vildi rýma Seðlabankann, þá kom ekki löggan askvaðandi og henti Davíð út. Nei, löggan þjónar auðvaldi jafnt sem ríkisvaldi.

Og hvort sem það eru útrásarvíkingar — sem ekki borga sjálfir fyrir vörslu á húsum sínum heldur hafa löggur á launum hjá almenningi til þess — eða aðrir sem eiga eignir að verja, þá þykir þeim óbærilegt að löggan sé ekki fjölmenn og öflug, til í slaginn til að verja það sem máli skipti: völd og peninga. Það er ekki óvart sem frjálshyggjustefnan — sem vill ekkert ríkisvald — vill samt lögreglu og það öfluga lögreglu. Því það þarf að passa að þeir sem ráða geti gert það í friði fyrir skrílnum, hvort sem skrílinn er vasaþjófur, innbrotsþjófur eða fokreiður skattgreiðandi sem óar við að sitja uppi með afleiðingar af viðskiptum fjárglæframanna.

Og fjölmiðlarnir, þetta leiguþý valdsins, þeir taka hvert viðtalið á fætur öðru við löggur sem kjökra yfir að fá ekki að vera á vakt með bestu vinum sínum og tala um að lögreglan sé eins og ein stór fjölskylda (minnast ekkert á rotnu eplin sem margsinnis eru staðin að því að beita almenna borgara valdi), skrifa greinar sem eiga að sýna fram á að aldrei aldrei aldrei hefur jafn mikið af frábæru fólki viljað vera löggur (til að fá að berja fólk) en vegna fjárskorts, hugsið ykkur, fjárskorts, fái það ekki að dafna í húsagörðum þar sem það getur komið í veg fyrir hinar ógurlegu málningaslettur.

Já, þetta er sorgarsaga. Ég held að ég fari grátandi í háttinn.

___
* Undanteking frá þessu er auðvitað lögmannastéttin, sem rakar inn fé í formi innheimtukostnaðar og launa fyrir setu í skilanefndum. Það er nú meira geðslega pakkið.

Efnisorð: , , ,