föstudagur, ágúst 21, 2009

Einkaskólar og útvalin börn efnaðra foreldra

Ég er ósammála öllum sem hafa tjáð sig um málefni Landakotsskóla í fjölmiðlum.

Landakotsskóli vill ekki of marga nemendur með sérþarfir. Mér er alveg sama hvernig því máli er snúið, það er ömurleg afstaða.*

Faðir barns sem fékk ekki skólavist í Landakotsskóla heldur því fram að það sé ekki að notfæra sér efnahagslega stöðu sína að senda barn í einkaskóla sem kostar hann 12.000 krónur á mánuði (það er fyrir utan það sem hann borgar með skólanum gegnum opinber gjöld, svona eins og við hin útsvars- og skattgreiðendur gera) — rétt eins og hann haldi að aðrir foreldrar með minni efni vildu ekki gjarnan að börnin sín væru í smærri bekkjum. Hann er sannarlega að gefa barni sínu forskot umfram önnur börn með því að geta borgað þessa peninga.

Margrét Pála Ólafsdóttir** sagði að einkaskólar þyrftu meira fjármagn. Eh, nei. Ef þetta fólk, sem álítur börnin sín svona mikið betri en annarra manna börn að þau þurfi að fá sérmeðferð (og nú á ég ekki við börn með sérþarfir, enda snýst málið hér um að verið er að mismuna börnum með sérþarfir, því bara sum þeirra eiga efnaða foreldra) þá getur það bara borgað enn meira og hið opinbera ætti ekki að borga krónu með þessum skólum, sama á hvaða skólastigi kennslan er.*** Ríkisreka þetta allt, með minni kostnaði og öll börn fái jafn góða þjónustu, takk!

Eina manneskjan sem hefur ekki tjáð sig í þessu máli, a.m.k. enn sem komið er, er brottrekni skólastjórinn. Henni er ég algerlega fylgjandi og styð hana í hvívetna, enda kenndi hún mér að lesa.

___
* Ég er reyndar ekki bara á móti stefnu Landakotsskólans í þessu máli, heldur er ég beinlínis á móti tilvist hans. Mér þykir fáránlegt að börn séu í trúarlegum skólum (eins og ég hef áður skrifað um).

** Mér finnst Hjallastefnan frábær. Ekki spurning. Og Margrét Pála snillingur að innleiða hana. Mér finnst hinsvegar ekkert að það þurfi endilega að framfylgja henni í einkareiknum leikskólum, hún á að vera fyrir öll börn.

*** Ég hef áður skrifað um að mér finnst að hið opinbera eigi ekki að styrkja einkareknu háskólana. (Þá hélt ég reyndar — sem var meginefni bloggfærslunnar — að lánsfé sem Ísland var að fá frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum yrði beinlínis notað í uppbyggingu í samfélaginu, en ekki í varaforða Seðlabankans).

Efnisorð: ,