föstudagur, ágúst 14, 2009

Davíð vill bylta

Ekki að mig hafi langað til að mótmæla á Austurvelli í gær, enda er ég þeirrar skoðunar að illskárra sé að samþykkja Icesave-samkomulagið í núverandi mynd en taka þá áhættu að annaðhvort dómstólar (hvaða dómstólar sem það ættu svo að vera) eða önnur samninganefnd komist að enn verri niðurstöðu. Og þegar ég sá að Sjálfstæðisflokkurinn hvatti fólk sérstaklega til að mæta, þá þótti mér ljóst að mótmælin væru enn ein tilraun flokksins til að komast aftur í valdastóla.* En þegar ég sá svo mynd af Davíð Oddssyni við mótmælin, þakkaði ég mínum sæla að hafa ekki látið sjá mig í þeim félagsskap.

Er ekki annars magnað að hann skuli láta sjá sig þar sem er verið að fjalla um afleiðingar hrunsins, þessi yfirhershöfðingi frjálshyggjunnar, maðurinn sem lagði niður Þjóðhagssstofnun? Honum taldi sér greinilega óhætt þarna í gær, viss um að allir á staðnum væru Sjálfstæðismenn. Ef þetta hefði verið sá hópur sem var á Austurvelli í janúar hefði Davíð verið tjargaður og fiðraður, ef hann hefði þá sloppið lifandi. En meðal sinna manna er hann ennþá guðinn.


___
* Mörður Árnason varpar upp hrikalegri framtíðarsýn; ráðherralista og þau verkefni sem ríkisstjórn Sjálfstæðis-og Framsóknarflokks myndi leggja áherslu á.

Efnisorð: ,