mánudagur, nóvember 10, 2008

Að eyða lánsfé - óskalisti

Enn ríkir óvissa um lán frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum og ýmsum ríkjum.* Það þarf (auk þess að losna við ríkisstjórn og seðlabankastjórn og gera eigur auðmanna upptækar og draga þá fyrir dómstóla - ásamt mörgum bankamanninum) að vita hvort við fáum lán frá útlöndum og þá hverjir lána og hve mikið og þá ekki síst Í HVAÐ ÞEIM PENINGUM YRÐI EYTT.

Ef það ætti að nota peningana til að fjármagna nýjar virkjanir eða álver** yrði ég ekki mjög hrifin, eða ef þeir ættu alfarið að fara í að borga icesave reikinga í Bretlandi og Hollandi - enda þótt ég vilji helst að við borgum þá vil ég ekki að þeir fari eingöngu í það.

Og ekki heldur ef þeir eiga að fara í að standa undir fjármálabraski auðmanna og taglhnýtinga þeirra, bjarga þeim úr snörunni - undir því yfirskini að „hjól atvinnulífsins þurfa að snúast.“ Þau hafa verið á yfirsnúning og má alveg slaka á þeim.

Þó sú hugmynd að styðja sprotafyrirtæki hljómi vel á pappír - og þarafleiðandi væri réttast að láta peningana fara í það - þá er mér ekki sama hverskonar fyrirtæki er um að ræða. Hvað á að framleiða, hvað á að selja?

Ég vil að velferðarkerfið verði styrkt, ekki bara til að styðja við bakið á öllu þessu vesalings ný-atvinnulausa bankafólki (sem leit niður á þau sem ekki voru á framabraut í viðskiptalífinu alveg þar til þau stóðu í röðinni við atvinnuleysisskrifstofuna**) heldur til að hlúa að öllum þeim sem ekki hafa mikið handa á milli, hafa átt erfitt í húsnæðismálum, atvinnumálum, fjölskyldumálum eða átt við heilsufarsvandamál að stríða (andleg eða líkamleg). Þannig ætti sálfræðiþjónusta að vera niðurgreidd af Tryggingastofnun**** en fyrir því hefur verið lengi verið barist.

Á sviði menntamála þá vil ég að hætt verði að styrkja (a.m.k. í eins miklum mæli og verið hefur) þá háskóla sem eingöngu hafa það að markmiði að unga út lögfræðingum og viðskiptafræðingum (sem allir hafa að sínu helsta markmiði að græða sem mest). Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, svo og Hugvísindadeild og Menntavísindasvið (eða hvað nú Kennaraháskólinn er kallaður)fái hæstu framlögin. Boðið verði upp á námsstyrki, en ekki námslán (nema til þeirra sem ætla í viðskiptafræði og lögfræði). Ríkið á að taka aftur við rekstri grunnskóla svo að sveitarfélögin sligist ekki undan honum og börn eiga að fá heitar og hollar máltíðir þar daglega, auk markvissrar kennslu í siðfræði, lífsleikni, hljóðfæraleik og hverju því sem nú til dags þykir efla þroska barna. Á efri stigum ætti að kenna börnum um fjármál ... Þó ekki til að gera þau að litlum græðgispúkum heldur sem hlut af lífsleikni; hvernig eigi að reka heimili og spara peninga án þess að láta blekkjast af gylliboðum fjármálafyrirtækja.

Heilbrigðiskerfið þarf að styrkja líka. Kann ekki nánari útfærslur á því, en ég vil að tannlækningar skólabarna séu fríar, svo og heimsóknir á heilsugæslustöðvar.

Frítt verði í strætó fyrir alla, leiðum bætt við og tíðni ferða aukin.

Menninguna verður líka að styrkja. Allt það sem var búið að leggja undir góðvilja fjármálafyritækja og fjársterkra aðila þarf að jafna með álíka framlagi (áfram verði ókeypis aðgangur á listasöfn). Sinfónían, Ríkisútvarpið, leikhúsin, Óperan, allt þarf þetta að halda fullri starfsemi og miðaverði verður að halda niðri eða lækka svo almenningur geti notið menningarinnar. Listamannalaun, rithöfundalaun og slíkt verður að vera svo veglegt að hægt sé að lifa af þeim.

Þannig dafnar þjóðlífið, þá verður líft hérna, hvort sem fólk hefur mikið handa á milli eða ekki.

En ef svo fer sem horfir, þá verða þessi orð mín eins og öfugmælavísa.

___
* TAKK FÆREYINGAR! TAKK PÓLVERJAR!
**Djöfullinn hafi það að ég samþykki að eina lausnin í góðæri sé álver og virkjanir og eina lausnin í kreppu sé álver og virkjanir
*** Reyndar var svona fínt fólk varla orðið atvinnulaust í massavís fyrr en tilkynnt var að nú væri hægt að skrá sig atvinnulausa á netinu, svo þau þurfa ekki að óhreinka á sér ímyndina með því að standa í röð með skrílnum.
**** Þegar talað er um að fara finnsku leiðina er átt við að nota þá aðferð Finna sem náði þeim fyrir rest uppúr kreppunni (Nokia, áhersla á menntamál), semsagt það sem var jákvætt og virkaði. En það er ljóst að þeir gerðu mörg mistök í upphafi og að þeir gleymdu alveg andlegri heilsu þegnanna meðan á þessum þrengingum stóð, sem m.a. má sjá í rosalegri sjálfsmorðstíðni og skotárásum í skólum.

Efnisorð: , , , , , , ,