þriðjudagur, október 21, 2008

Skilgreining á einelti

Einelti er EKKI þegar valdamesti maður þjóðarinnar í hartnær tuttugu ár er gagnrýndur fyrir störf sín eða þess er krafist að hann láti af störfum.

Einelti er EKKI að rekja þátt hans í að fiskikvóti varð söluvara, að ríkisbankar voru gefnir flokksgæðingum, að leggja niður ÞJóðhagsstofnun, að ráða vini sína og ættingja í Hæstarétt (og koma síðar syni sínum að við héraðsdóm), að setja sérákvæði í eftirlaunafrumvarp þingmanna sem hyglaði honum sérstaklega, að láta manninn sem hann leyfði að verða forsætisráðherra (því hann langaði svo að prófa stólinn) ráða sig sem Seðlabankastjóra; hvar hann svo nagaði blýanta meðan nýju bankastjórarnir á ofurlaununum veðsettu þjóðina í braski. Og ekki má gleyma því að það var hann sem sló í frjálshyggjuklárinn og hleypti honum á skeið.

Einelti er EKKI þegar þessi valdamesti maður þjóðarinnar - og sá sem hefur með einhverjum hætti náð að dáleiða dágóðan hluta hennar - er sakaður um að hafa leitt þessa sömu þjóð, bæði þau sem gagnrýna hann og þessi dáleiddu, í þvílíkar ógöngur að leitun er að öðru eins. (Jafnvel þótt hann hafi sannarlega fengið til þess hjálp þessara 20 gróðapunga sem við öll vitum nöfnin á).

Einelti er EKKI að benda á að blaður hans í beinni útsendingu í sjónvarpi varð til þess að annar álíka vitleysingur notaði yfirlýsingar hans sem smjörklípu til að draga athyglina frá sér,* sem gerði bara illt verra. Máttleysisleg tilraun til að halda gengi íslensku krónunnar kyrru næstu daga á eftir var aðhlátursefni útaf fyrir sig, því enginn tók mark á því.

Einelti er EKKI að safnast saman á Arnarhóli eða Austurvelli og heimta að þessi fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi borgarstjóri, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi Seðlabankastjóri segi af sér, né heldur að skrifa um hann og gegn honum á bloggsíðum. Gagnrýni á störf hans er fullkomlega eðlileg og ekki síst í ljósi nýlegra atburða.

Kallið það hvað sem er annað, en þetta er EKKI einelti.

___
* Athyglisvert að höfundur smjörklípuaðferðarinnar skuli hafa lagt þetta uppí hendurnar á breska forsætisráðherranum, en jafnframt algerlega augljóst að allar gjörðir þess breska hafa reynst íslenskum ráðamönnum kærkomin smjörklípa og láta nú allir sem Gordon Brown eigi sök á hruni íslenska hagkerfisins.

Efnisorð: , , ,