þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Útí mýri, á hafnarbakka eða Laugavegi

Kolbrún Halldórsdóttir hefur stungið uppá að Listaháskólinn verði á þeim stað sem hluti af starfsemi hans er nú við Sölvhólsgötu, meðal ráðuneytanna bakvið Þjóðleikhúsið. Ólína Þorvarðardóttir vill að skólinn flytjist í Vatnsmýri (þar sem hann eignaðist lóð í fyrra) þar sem hann myndi sóma sér í félagi við Háskóla Íslands.

Ég er reyndar ósammála því að enginn græði á sambýli við Listaháskólann; lengi hefur verið sagt að fleira fólk þurfi að sækja miðbæinn til þess að verslunarrekstur borgi sig. Lista- háskólanemendur sækja lítið í Smáralind og Kringluna, en því meira í verslanir með notuð föt og kaffihús við Laugaveg.

En þar sem ég er, eins og þær, á þeirri skoðun að sú bygging sem Listaháskólinn sér fyrir sér sem sitt framtíðarhúsnæði sé alltof stór miðað við aðrar byggingar á Laugaveginum, þá minni ég á gamla ósk sem barst frá LHÍ fyrir nokkrum árum og lesa má í Morgunblaðinu, 19. júní 2005.

„Fundur nemenda, kennara og starfsfólks Listaháskóla Íslands hefur lýst yfir stuðningi við ákvörðun stjórnar skólans um að leita eftir lóð fyrir framtíðarhúsnæði skólans á lóð við Austurhöfn í Reykjavík. Í samþykkt fundarins segir að með þessari staðsetningu gæti Listaháskólinn orði táknmynd sköpunar og sú menntunarmiðstöð sem landsmenn gætu litið til. Nálægt við menningarstofnanir, aðra háskóla og bein samlegð með Tónlistarhúsinu sem áætlað er að rísi þarna bjóði upp á margháttar samstarf en margir listamenn hafa ítrekað bent á gildi þess að tengja Lista- háskólann við starfsemina á hafnarsvæðinu.

Jafnframt telur fundurinn að það yrði ávinningur fyrir borgina að fá nemendur skólans og fjölmennt starfslið inn á þetta svæði og myndi það gæða miðborgina auknu lífi og krafti.

Fundurinn skorar á menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg að veita erindi stjórnar Listaháskóla Íslands þann stuðning sem þarf til að koma húsnæðismálum skólans endanlega í höfn.“

Nú er búið að rífa hús Stálsmiðjunnar við Mýrargötu en mikil uppbygging er fyrirhuguð á því svæði. Mér sýnist sem þar sé upplagt að byggja skólann, enda þótt hann sé þá kominn spölkorn frá þeim stað sem beinlínis óskað var eftir. Engu að síður myndi sú staðsetning „kallast á“ við Tónlistarhúsið.

Efnisorð: