fimmtudagur, júlí 24, 2008

Ísland er nýlenda álfyrirtækjanna

Á fundi Saving Iceland kom margt áhugavert fram og sumt reyni ég að hafa eftir hér.

Báxítnámur á Indlandi og álver sem þar hafa sprottið upp hafa mengað ár og sjást þess merki í beinvexti fólks og dýra.

Álfyrirtæki ásælast báxít á fjallstoppum þar sem býr fólk sem á ekki önnur samskipti við umheiminn önnur en fara á markað einu sinni í viku að selja afurðir. Reynslan sýnir að verði þetta fólk flutt burt er líklegt að það flytjist til borga og endar sem þrælar. Samarendra Das sagði, í fyrirlestri sínum, að í raun væri þetta menningarleg þjóðarmorð því þarna yrðu heilu samfélögin þurrkuð út - til þess að framleiða ál. (En það er kannski í lagi svo framarlega sem Austfirðingar og Húsvíkingar fái atvinnu heim í hérað?)

Hér valda svo virkjanir óafturkræfum skemmdum á landinu, með afleiðingum sem við sjáum ekki fyrir. Og meira vilja menn samt enn virkja, því nú er komin kreppa og þá þarf að byggja fleiri álver til að halda uppi lifistandard þjóðarinnar (risastór Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði forðuðu okkur nú samt ekki frá þessari kreppu). Atvinnuástandið á Austfjörðum er víst ekkert mikið skárra en áður - samt átti virkjun og álver að snúa við fólksflóttanum. Svona eins og á að gera á Húsavík.

Ferð báxítsins liggur um flest heimsins höf á leiðinni til Íslands og mikið eldsneyti notað til að knýja skipin. Það virðist þó borga sig að flytja það til álveranna á Íslandi bara til að flytja það út aftur; engu logið með lægsta mögulega verð á rafmagni hér á landi ef flutnings- kostnaðurinn vegur svona lítið.

Og ef við rukkum svona lítið fyrir rafmagnið og álverin borga bara 5% skatt - er þá íslenska þjóðarbúið virkilega að græða svona rosalega á þessu brölti?

Og er okkur sama um að afurðin, álið, er notað í að framleiða vopn?

Á byrjunarreit, t.d. á Indlandi, verður fólk fyrir líkamlegum skaða og menning þeirra á í hættu að þurrkast út. Á Íslandi verður hagnaður heimamanna og þjóðarinnar ekki sá sem lofað var. Endapunkturinn er að einhverstaðar í heiminum er manneskja drepin með vopni úr áli.

Þykir einhverjum öðrum en álfyrirtækjunum þetta ásættanlegt?

Efnisorð: , ,