þriðjudagur, júní 24, 2008

Plástur á aukakílóin

Þó ég líti lyfjafyrirtæki oft hornauga þá gegnir öðru máli um lyfjaverslanir. Ég er líklega haldin einhverri gamaldags hugmynd um vinalega apótekara sem vilja hvern vanda leysa og gauka apótekaralakkrís að börnum með feita putta. En auðvitað eru gömlu apótekin löngu liðin undir lok og étin upp til agna af stórfyrirtækjum sem reka þau með markaðshlutdeild í huga.

Það er líklega þessvegna sem ég hef verið að reka augun í ýmsan varning í lyfjaverslunum, varning sem ég get ekki með góðu móti séð að komi 'hjálparstarfi' lyfsala við. Fyrir nokkrum árum rak mig í rogastans þegar ég sá stillt upp við afgreiðsluborðið kremi og áberandi leiðbeiningum um notkun þess. Kremið átti að 'auka unað ástarlífsins' eða eitthvað álíka og var að mig minnir kallað 'fullnægingarkrem fyrir konur'. Það átti að virka þannig að ef það væri borið á sníp með fingrunum þá fengi konan fullnægingu. Flest fólk veit reyndar að sé verið að vesenast í snípnum með fingrunum þá gæti það leitt til fullnægingar, en þarna var búið að markaðssetja rándýrt (kostaði yfir fimmþúsund kall þá) krem sem kynnt var sem töfralausn. Og þetta var selt í lyfjabúðum, rétt eins og hvert annað lyf eða nauðsynjavara.

Í gær átti ég svo leið í lyfjabúð og meðan ég beið við kassann sá ég bækling (ekki vöruna sjálfa) um plástur sem á að verða til þess að fólk missi aukakílóin. Textinn hljóðar svona:

Plástur á aukakílóin
100% náttúruvara
Einn á sólarhring
Minnkar matarlyst
Árangur eftir viku
Virkar allstaðar [á meðfylgjandi mynd sést grönn kona setja plástur á lendina]

Þarna koma fram sérkennilegar upplýsingar (ekki vissi ég að aukakílóin ættu svo bágt að þau þyrftu plástur) og ekki er ég viss um að framleiðandi geti staðið undir þessum fullyrðingum, nema virkni plástranna sé sú að fólki verði óglatt og missi matarlyst af þeim sökum (er það kannski ástæða þess að aðeins má nota einn á dag? Eru þetta fantasterkir nikótínplástrar?). Best af öllu er auðvitað að koma að tölunni 100% - hún gefur ísmeygilega til kynna að megrunaraðferðin virki 100% þótt það sé ekki það sem textinn segir.

Augljóslega er verið að spila á sívaxandi þörf fólks til að passa í ímyndina sem gefin er af hamingjusömu fólki; að það sé grannt. Það er vont að vera feit og þessvegna á fólk að hlaupa upp til handa og fóta og reyna bókstaflega allt til þess að ná 'hinni æskilegu kjörþyngd'. Að sama skapi er skylda að lifa hamingjusömu kynlífi (burtséð frá hvernig sambandið er að öðru leyti við makann eða hvort áföll á lífsleiðinni hafi haft sálræn áhrif á getuna til að njóta kynlífs) og sífellt er verið að ota að fólki lausnum sem eiga að gera það sígratt og glatt.

Fólk sem er fast í fortíðinni eins og ég, áttar sig ekkert endilega á því að hér er verið að pranga inná það svikinni vöru. Það ímyndar sér að lyfjabúðin sé framvörður heilbrigðiskerfisins og að læknar og vísindamenn vinni að því dag og nótt að tryggja því áferðafalleg læri og kröftugar fullnægingar. Eflaust kaupa einhver þetta plástursdót og þegar það virkar ekki er einhverju öðru drasli prangað inn á fólk (dæmi um megrunarlausnir sem ég man eftir: megrunarkaramellur, megrunarduft, auk allra kúranna) og einhver græðir. Þau sem ekki græða er fólkið sem er búið að fylla af skömm og sektarkennd yfir að líta ekki út eins og tískusýningarmódel, fólk sem kaupir allt draslið og reynir endalaust með engum árangri.

Það er verulega súrt að lyfjaverslanirnar skuli taka þátt í þessum blekkingarleik.

Efnisorð: