miðvikudagur, apríl 23, 2008

Dauði klámblaðs

Nú er hún gamla Grýla dauð og gafst hún upp á rólunum.

Hljómar það ekki einhvernveginn svona? Þetta er a.m.k. það sem ég raula þegar eitthvað, sem mér er illa við, leggur upp laupana án nokkurrar eftirsjár af minni hálfu. Þessvegna brast ég í þennan söng þegar ég las á forsíðu Fréttablaðsins að Bleikt og blátt kæmi ekki framar út.

Þegar Bleikt og blátt kom fyrst út var Ingibjörg kynfræðingur* ritstjóri** og útgefandi þess (ef ég man rétt). Ég hélt (eins og eflaust fleiri) að þarna væri komið vandað blað með mikilvægum upplýsingum fyrir almenning og keypti meira segja tvö þrjú tölublöð. En mér varð fljótlega ljóst að myndir voru notaðar til að „skreyta“ blaðið og þær myndir voru ekki af almenningi öllum, heldur ungu grönnu fólki í gagnkynhneigðum athöfnum (kannski voru einhverjar myndir af tveimur konum, ég man það ekki). Blaðið var semsé ekkert skárra en hvert annað sjálfsfróunarefni fyrir karlmenn; semsagt klámblað.

Kynfræðingurinn seldi svo blaðið í hendur annarra og það varð enn klámfengnara. Á tímabili voru íslenskar fyrirsætur á ljósmyndunum og var þá lagður grunnur að íslenskum klámiðnaði enda þarf þá ljósmyndara, förðunarfólk og annað fagfólk að vinna að öllum myndatökum. Sem betur fer virðist sú klámmyndagerð ekki hafa breiðst mikið út hér á landi; líklega á hún í of mikilli samkeppni við klám á netinu, sem varð víst einmitt banabiti Bleikt og blátt.**

Nú verður hægt að versla á bensínstöðvum, í matvörubúðum og bókabúðum án þess að þurfa að horfa uppá einhverjar vesalings konur niðurlægja sig á forsíðu íslensks tímarits. Það er mikið fagnaðarefni.

--
*Eftir því sem tímar liðu áttaði ég mig svo á því að mér er meinilla við kynfræðinga, því allar virðast þær aðhyllast klám. Kannski hef ég bara ekki kynnt mér nógu mikið af efni um eða eftir kynfræðinga, en íslenskar og danskar kynfræðingar virðast allar ráðleggja konum (sem til þeirra leita ásamt maka sínum) sem hafa ekki nógu mikinn áhuga á kynlífi (lesist: karlinn fær ekki nógu oft að ríða að hans mati) að horfa á klámmyndir með maka sínum. Eins og það sé einhver lækning í því fólgin að horfa á niðurlægingu annarra!

** Í Fréttablaðinu voru myndir af flestum ritstjórum blaðsins og nöfn þeirra allra. Ég mun ávallt hafa skömm á öllu því hyski.

***Ekki gleðst ég yfir klámi á netinu en ég get ekki annað en glaðst yfir því að klámmyndaframleiðsla hafi ekki fest hér rætur (þrátt fyrir yfirlýsingar einhvers klámaulans um daginn að hann væri að framleiða slíka mynd).

Efnisorð: ,