föstudagur, febrúar 01, 2008

Reykingamönnum sigað á gesti

Árum saman voru í gildi þær reglur að veitingahúsum bar að hafa afmarkað svæði þar sem fólk gæti verið án þess að verða fyrir reyk annarra veitingahúsagesta. Þetta var sumstaðar illmögulegt í framkvæmd en annarstaðar var hægara um vik. Þó var undantekning ef reglum var beinlínis fylgt og gestir gátu setið óáreittir fyrir reykspúandi tóbaksfíklum. Þannig hefðu auðvitað gestir á Vegamótum sem reyktu átt að sitja uppi en þeir reyklausu niðri, en rekstraraðilum staðarins fannst greinilega betri hugmynd að hafa reyklausa fólkið á efri hæðinni - þar sem svo reykurinn frá reykingafólkinu liðaðist upp til þeirra.

Vegna þess að ekki var með nokkru móti hægt að fá veitingamenn til að fylgja þessum reglum og hlífa gestum sínum við eitrinu, var brugðið á það ráð að setja reglur sem bönnuðu reykingar alfarið á veitingahúsum, þ.m.t. matsölustöðum, kaffihúsum, börum og skemmtistöðum.* Þetta var að vísu gert útfrá einhverjum vinnuverndarlögum með vísun í að vernda bæri heilsu starfsfólks, en öllum var ljóst að gestir veitingastaðanna myndu njóta góðs af þessu og þetta var gert þeim til verndar líka.

Undanfarið hafa veitingahúsaeigendur farið mikinn í fjölmiðlum til að mótmæla þessu reykbanni og haft ýmis brögð til að skjóta sér framhjá banninu, nú síðast brutu þeir það alfarið „í mótmælaskyni.“

Alltíeinu þykjast þeir vilja setja upp afmörkuð svæði (með talsverðum tilkostnaði) þar sem verði reykt en annarstaðar ekki. Líklega eru þau með svo loftþéttum dyrum að aldrei sleppur reykur út, auk þess sem starfsfólkið sem þar þjónar til borðs hlýtur að vera sérstaklega ónæmt fyrir reyk - eða vera laust undan hallærislegum kröfum um vernd á vinnustöðum. (Og mikið yrðu nú álverin fegin að fá starfsfólk sem er til í að vinna í menguðu umhverfi án þess að skeyta um forræðishyggjuna sem vinnuverndarlög eru svo skínandi dæmi um). Og hvað verður um fólk sem réði sig til starfa eftir að reykingabannið tók gildi og hefði annars aldrei viljað vinna á veitingahúsi? Er þeirra frelsi fólgið í að hætta vinnunni, eða þýðir eitthvað að fara fram á að þeirra vakt verði reyklaus?

Og hvað er svo langt í að veitingahúsaeigendur haldi því fram að það sé svo þröngt á þingi í reykingaklefunum og hafi því endaskipti á hlutunum og setji þau reyklausu þar inn?

Ég hef hvergi fundið lista yfir þá u.þ.b. þrjátíu veitingastaði sem „leyfðu“** reykingar í mótmælaskyni. Geti einhver bent mér á hann get ég markvisst farið að forðast þá staði.

--
* Ekki einn bar eða einn skemmtistaður var reyklaus eða með reyk- og reyklaus svæði fyrir bannið. Þannig að val þeirra sem vildu fara út á meðal fólks á kvöldin var ekkert.

**Mér finnst fáránlegt að tala um að reykingarnar hefðu verið „leyfðar“, nær væri að fjölmiðlar töluðu um að veitingamenn hefðu sigað reykingamönnum gegn reyklausum gestum. En eitt af því jákvæðasta við reykbannið var að allir gestir gátu verið saman á einum stað, í stað þess að þessi vildi fara á reyklaust kaffihús en hin á kaffihús með reyk.

Efnisorð: ,