föstudagur, desember 28, 2007

Eru konur á Vesturlöndum víti til varnaðar?

Ég var að lesa vangaveltur á bloggi um afhverju konur hefðu ekki haft kosningarétt í Grikklandi til forna. Bent var á að kannski væri ekki hægt að lá forn-Grikkjum fyrir að meina konum um kosningarétt – þær voru jú bara í þeirra huga barneignamaskínur - því hvernig er hægt að hugsa sér eitthvað fjarstæðukennt þegar það hefur aldrei verið til?

En nú, þegar konur hafa haft kosningarétt í nálægt hundrað ár í flestum löndum Evrópu og Norður-Ameríku og alveg frá 1893 í Nýja-Sjálandi (þar sem Helen Clark er nú forsætisráðherra) og hafa menntað sig, unnið úti, ferðast – hvernig getur múslimum þá ekki dottið í hug að konur í löndum islam hafi rétt til þess sama? Hvað er það sem þeir sjá svona slæmt við að konur séu forsætisráðherrar, háskólakennarar, eða bara aki eigin bíl til vinnu sinnar, hver sem hún er? Varla er það vegna þess að þeir haldi að þær geti ekkert af þessu, því það er búið að sýna fram á annað.

Eina skýringin er sú að þeir vilja ekki missa vald sitt yfir lífi kvenna. Þeir vilja ráða við hverja konur tala, hvernig þær klæða sig, hvað þær gera og hvert þær fara. Mæður, dætur, systur, eiginkonur, þeir vilja hafa þær allar undir sinni stjórn. Það eru sannarlega líka til kristnir karlmenn og reyndar karlmenn af öllum trúarbrögðum (trúlausir líka!) sem vilja ráða yfir konum á þennan hátt. (Og klámiðnaðurinn er ein leiðin til að halda konum niðri, en það er önnur hlið málsins sem ég ætla ekki að ræða að sinni).

Merkilega sterkt þetta afl sem leiðir karla áfram, löngunin til að ráða yfir öðrum. Þeir nota til þess hnúa og hnefa, hnífa og kjarnorkuvopn. Endalaust stríð gegn öllum í kringum sig. Auðveldustu fórnarlömb yfirgangssemi þeirra eru konur. Þær hafa ekki vöðvastyrkinn til að berjast og í mörgum löndum ekki ferðafrelsi til að fara, og þó þær færu – ekki fé eða neinn grundvöll til að byggja nýtt líf á. Mikið hlýtur þessum mönnum að líða vel, að hafa konur undir hælnum. Þær sem ekki vilja vera þar, þær eru drepnar.

Mikill er máttur karlveldisins og mikið ganga þeir langt til að viðhalda því.

Efnisorð: , , ,