þriðjudagur, desember 25, 2007

Hjólhýsablogg

Ekki alls fyrir löngu stofnaði mbl.is til bloggsvæðis fyrir lesendur sína og til að vekja athygli á því voru fyrirsagnir og upphafssetningar valdra blogga sýndar á forsíðu fréttavefjarins. Þetta varð til þess að fólk, sem áður hafði ekki hugmynd um hvað blogg væri eða ef það vissi um tilvist þess þá vissi það ekkert hvar það var að finna, hafði alltíeinu aðgang að bloggfærslum bláókunnugs fólks – nú eða þá gamalla kunningja sinna. Til þess að geta lagt orð í belg urðu lesendur sjálfir að stofna blogg. Þetta er í sjálfu sér skemmtilegt, að fólk uppgötvaði blogg, en það fyrirbæri var þó löngu orðið til og margir Íslendingar blogguðu fyrir þennan tíma en voru ekki eins víðlesnir einfaldlega vegna þess að fjöldinn vissi ekki hvar þau var að finna því Blogspot, Livejournal, Wordpress o.fl. hafði ekki orðið á vegi þeirra fram að þessu.

En svo gerist það auðvitað að það leynist misjafn sauður í mörgu fé – og var svosem vitað í bloggheimum fyrir, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Inná milli slæddist t.d. fólk sem hafði andstyggilegar skoðanir á innflytjendum og öðrum útlendingum sem hér eru til lengri eða skemmri tíma vegna vinnu sinnar. Þeir sem framað því höfðu kannski ekki verið vissir um skoðanir sínar eða voru líka á móti innflytjendum fundu þarna sett í orð eitthvað sem þeir voru sammála og áður en varði bergmálaði útlendingahatrið á bloggsíðum. Þar gátu þeir sem eru vitlausari eða óskipulagðari lært að koma orðum að ógeðfelldum tilfinningum sínum, jafnvel lagt á minnið‘röksemdafærslur’ og tvíefldust því. Og því fleiri blogg sem svona fólk les þar sem það sér skoðunum sínum hampað því fleiri bætast í hópinn. Þetta á líka við um þá sem fóru að skrifa gegn feminisma, þeim óx ásmegin eftir því sem þeir sáu fleiri skoðanabræður sína básúna kvenhatur sitt.

Þetta er semsé formálinn að því sem ég er að reyna að koma orðum að vegna árásanna á feminista að undanförnu. Ég efast ekkert um að feministar eru hataðir vegna skoðanna sinna. Ég efast ekkert um að karlmenn hati þær, bæði þeir sem eru þekktir í fjölmiðlum vegna athyglissýki sinnar og þeir sem eru ekki þekktir, hvort sem þeir skrifa undir eigin nafni, nafnlaust eða skáldi upp persónur til að skýla sér bakvið. Mér hefur oft orðið um og ó vegna þess sem hefur verið skóflað inná athugasemdakerfi nafnkunnra feminista – kvenna sem hafa gert kvennabaráttunni ótrúlega mikið gagn og eiga allar þakkir skildar – og veður uppi á bloggsíðum víðsvegar. Og það er alveg rétt að sumar gefast upp, kikna undan álaginu, eða neyðast í það minnsta til að loka fyrir athugasemdir á bloggum sínum. En til þess er auðvitað leikurinn gerður, til að ógna feministum og þagga niður í okkur.

Sumt af þessu er sett fram í nafni ‘gríns’ og ‘fyndni’. Það á að vera fyndið að kalla konur hrikalegum ónefnum, ræða kynlíf með konum á mjög ógeðfelldan hátt sem bendir til þess að þær séu bara ílát með notkunarmöguleika. (Þetta á svosem líka við um fleira en blogg, stundum er þetta í gamanþáttum í fjölmiðlum). Og nýleg dæmi eru um að konum sé hótað nauðgun.

Stundum finnst mér tjáningarfrelsi vera fullkomlega ofmetið.

Mér var eitt sinn sagt að til þess að halda bjartsýni á lífið sé gott ráð að hætta að lesa blöðin. Ætli ég geri það ekki að áramótaheiti mínu að draga úr blogglestri, að minnsta kosti hætta að elta tengla á ókunnugar bloggsíður og forðast að lesa ný blogg ef ég sé karlmannsnafn skrifað fyrir því. Þá mun ég hætta að lesa mbl.is (við hliðina á fréttum má sjá fyrirsagnir bloggara sem gera oft andstyggilegar athugasemdir um ýmislegt sem tengist konum, kynbundnu ofbeldi og feminisma) auk þess að hætta að fylgjast með Blogggáttinni vegna fyrirsagnanna (sem oft eru af moggablogginu); þar sést þegar feministum er sendur tónninn.

Heimurinn versnaði kannski ekki í kjölfar moggabloggsins, en það varð skyndilega mjög áberandi hvað mikið er til af ógeðfelldu fólki.

Efnisorð: , , , ,