mánudagur, nóvember 12, 2007

Drakúla snýr aftur

Þó annir hamli bloggskrifum á stundum þá er það allsekki svo að þær, fremur en nokkuð annað, komi í veg fyrir að lesnar séu góðar bækur fyrir svefninn. Nú er ég nýbyrjuð að lesa Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson og er stórhrifin. Reyndar er ég svo skammt komin í bókinni (er á bls. 66) að ég ætti sem minnst að segja, því enn getur hún farið á brautir sem mér hugnast ekki eða þá að höfundur komist að einhverri niðurstöðu sem er mér illskiljanleg. En það gladdi mitt litla hjarta að sjá hve sammála við erum um frjálshyggjuna, sem nú tröllríður öllu. Kaflar átta og níu ríma líka ákaflega vel við það sem ég sagði hér („Árangur verkalýðsbaráttu að engu gerður“) og í fjölmörgum öðrum bloggfærslum mínum – enda þótt Einar Már reki vissulega sögulegu forsendurnar betur og noti vandaðra málfar en mér er unnt. En ef svo fer sem horfir verður þessi bók mér álíka hugfólgin og Draumalandið.

[Titill bloggfærslunnar er úr Bréfi til Maríu, bls. 60, þar sem sagt er að frjálshyggjan sé „vilji til að hverfa aftur til þjóðfélagsins fyrir daga velferðarinnar, þegar kapítalistar gátu leikið alveg lausum hala.“]

Efnisorð: