fimmtudagur, september 06, 2007

Er nekt eina leiðin?

Vonandi heldur engin að ég hafi átt við auglýsingaherferð Baðhússins þegar ég var að tala um „erótískar“ ljósmyndir. Mér vitanlega hefur engin sagt að þær eigi að vera erótískar, svo ekki urðu þær mér tilefni skrifanna. Ég vil nú síður gagnrýna þessar auglýsingar því ég skil vel meininguna bak við þær; að konur séu fallegar hversu mörg sem kílóin eru og burtséð frá hvernig þau dreifast. Ég veit að kvenlíkaminn sem við sjáum venjulega í auglýsingum er alltaf sá sami: stór brjóst, grannt mitti, langir grannir leggir, hvergi arða af fitu og allt mjög stinnt.

Auðvitað er fáránlegt að hugsanlega sé til fólk sem heldur að svona og ekki öðruvísi eigi konur að vera. Og fyrir konur sem ekki eru svona útlits (en það erum við fæstar) þá er vont að vera alltaf síðri en þessar í auglýsingunum. En það sem ég fer alltaf að hugsa þegar ég sé konur sem eru eldri en þær sem við sjáum venjulega í auglýsingunum, eða þyngri, er: hvar liggja mörkin?

Er vont fyrir allar konur að kona sem er tvítug og 48 kíló sjáist í auglýsingunum en frábært ef hún er sextug og 73 kíló? En fimmtug og 62 kíló? Eða þrjátíu og fimm og 53 kíló? Eða 47 og 59 kíló? Hvar liggja mörkin, svona nánar tiltekið? Hvenær er kona hætt að vera ung og staðalímynd og verður stoltur fulltrúi sinnar kynslóðar, eða ekki lengur slæm fyrirmynd í holdafari heldur ‘sátt við líkamann’? Er ekki helsta meinið það, að konur skuli þurfa að sækja sér sjálfsvirðingu í dóm annarra, á almannafæri? Mér þykir leitt að konur skuli vera naktar í auglýsingaherferðum fyrirtækja eru (á það jafnt við um Baðhúsið og Dove húðvöru-herferðina), hvernig sem þær svo eru vaxnar eða hversu gamlar eða ungar þær eru.

Efnisorð: ,