miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Allt við það sama: Fávitar á DV og í löggunni

Forsíða DV í dag er svo ógeðsleg að mig rak í rogastans þegar ég sá hana. Hótanir í garð lögreglukonu eru þar með stríðsletri, og eins og hótanir eru líklega gjarna, þá er hótunin mjög ógeðsleg og ekki eftir hafandi. Hvernig dettur blaðamönnum DV að skella þessu framan í almenning? Eru þeir að vonast til að þetta verði að frasa sem krakkar garga hver á annan á skólalóðinni?

Ég lét mig samt hafa það að opna blaðið (svo lítið bar á í sjoppunni, líklega er ætlast til að blöðin séu keypt en ekki lesin á staðnum) og renndi yfir fréttina. Mér sýnist samkvæmt fréttinni, að þetta sé sama málið og það sem snýst um að kona var beitt kynferðisofbeldi af hálfu lögreglu þegar hún neitaði að skila þvagprufu eftir að hafa verið staðin að ölvunarakstri. Það sem ekki kom fram í fréttinni, sem taldi samviskusamlega upp allt sem konan hafði brotið af sér (keyrt full, sparkað í löggur auk hótananna), var hvenær hún sagði þessi hræðilegu orð við kvenlögguna. Var það kannski þegar ljóst var að þvaglegg yrði troðið í hana gegn hennar vilja? Eða jafnvel meðan á því viðurstyggilega athæfi stóð? Ef svo er – og það finnst mér hreinlega líklegt – þá tilkynni ég hér og nú að ég myndi örugglega hóta löggunni og afkomendum þeirra í sjöunda ættlið ef þau ætluðu að gera þetta við mig (þó ég myndi ekki nota þetta viðbjóðsorðalag og haft er eftir konunni).

1) Það hlýtur að hafa mátt bíða eftir að konunni yrði mál
2) Það hlýtur að hafa mátt notast við blóðprufu
3) Það hlýtur að vera hægt að taka blóðprufu eða þvagprufu af manneskjunni þegar nægilega er runnið af henni til að hún taki sönsum og reikna tímann sem hún fékk til að láta renna af sér inní þá tölu sem kemur þá út úr prófinu.

Hvarflaði ekki að neinum viðstöddum að það að troða þvaglegg í konu sem berst á móti og mótmælir sé ofbeldi? Og þar sem þvagleggur fer augljóslega í þvagrás sem er í klofi konu þá sé um kynferðisbrot að ræða? Eða er ekkert í lögunum sem segir að það megi ekki nota aðskotahluti til að niðurlægja konur og níðast á þeim?

Alveg er ég handviss um að allir þeir sem þarna eiga hlut að máli verða sýknaðir – nema konan auðvitað (sem DV nafngreinir af alkunnri smekkvísi) sem verður dæmd fyrir að gera eitthvað og segja eitthvað við lögregluna.

(Hvarfli það að einhverjum hér að mér finnist í lagi að aka drukkin þá er það mikill misskilningur. Hinsvegar þykir mér ekki að fólk sem keyrir drukkið hafi afsalað sér mannréttindum.)

Efnisorð: , ,