mánudagur, júlí 23, 2007

Vér kvökum og þökkum

Oft heyri ég fólk, sem hefur dvalist langdvölum erlendis eða ferðast akandi í útlöndum, býsnast yfir því að umferðarómenningin á Íslandi sé engu lík. Það finnst mér alltaf svoldið fyndið, því ef svona mörg í umferðinni eru vön annarri hegðun í útlöndum, afhverju innleiða þau hana ekki hér í stað þess að hneykslast á heimalningunum sem vita ekki betur? Svo heyrði ég viðtal við konu í útvarpinu um daginn, og hún var einmitt ein þessara sem hafði búið erlendis og þekkti til betri umferðarmenningar. Hún sagði að hún og maðurinn hennar hefðu fyrstu tvö árin eftir heimkomuna verið mjög kurteis í umferðinni, gefið séns og látið vita að þau væru þakklát þegar einhver gaf þeim séns og svo framvegis. En svo urðu þau svo svekkt á undirtektunum – það var engin áberandi þakklát – að þau hættu því. Þau hættu að vera kurteis í umferðinni eftir tveggja ára reynslutíma útaf því að fólk var þeim ekki þakklátt!

Ég, eins og flest annað fólk, hef lært ýmsar kurteisisreglur um ævina; heilsa, ekki benda, ekki bora í nefið, fara úr skónum, ekki tala hátt í kirkju o.s.frv. Síðar bættust við óskráðar reglur um hegðun á dansgólfum, á fínum veitingastöðum, í umferðinni. Ekki held ég að eina ástæða þess að ég reyni að hegða mér skikkanlega á almannafæri sé að ég búist við stöðugu þakklæti fyrir að hegða mér eins og siðað fólk. Né heldur hef ég hætt að heilsa fólki sem ég er kynnt fyrir því mér var aldrei þakkað það sérstaklega. Ég skil ekki alveg hvernig hægt er að ætlast til þess af öðrum að þeir elti uppi bílstjórann sem gaf stefnuljós áður en hann skipti um akrein, bara til að þakka honum fyrir þessa svakalegu – en sannarlega sjaldgæfu – kurteisi.

Kannski er þessi skortur okkar hinna í samfélaginu á þakklæti ástæða þess að sjá má marga unglingsstráka hrækja í allar áttir og fullorðna karlmenn bora í nefið og éta afraksturinn þar sem þeir sitja undir stýri. Það hefur alveg gleymst að beita jákvæðri styrkingu og hrósa þeim þá sjaldan hráki og hor var ekki sýnilegur. Allt okkur hinum að kenna semsé.

Og vegna þess að þetta á ekki að verða neitt umferðarblogg, þá ætla ég að taka beygju (með stefnuljósum) og beina talinu að einu helsta umræðuefni mínu. – Getur verið að ef konur þakka karlmönnum nógu oft fyrir að hegða sér þannig að þeir skaði ekki aðra, að þá sé von til að nauðgunum linni? Þarf að hrósa hverjum og einum karlmanni fyrir að hafa ekki nauðgað í dag, beitt ofbeldi, skoðað klám? Flestir myndu líklega móðgast ægilega ef haft væri orð á þessu við þá, en afhverju, ættu þeir ekki að vera ánægðir með hrósið og halda áfram að vera ekki-nauðgarar, ekki-ofbeldismenn og ekki-klámneytendur?

Ég og mínar félagslegu tilraunir. Þær virka örugglega aldrei.

Efnisorð: , , ,