föstudagur, júlí 06, 2007

Og mennirnir sem verja þá

Eitt af því sem flest geta komið sér saman um, er að sá sem er dreginn fyrir dómstóla eigi rétt á sanngjarnri málsmeðferð og að hann fái hæfan verjanda sem beiti sér fyrir skjólstæðingi sínum í réttarsalnum. Sumir vorkenna lögmönnum að verja þá glæpamenn sem fremja ógeðslega glæpi, en hugga sig við framangreint og að ‘einhver þurfi að verja þá líka’. En sumir þessara lögmanna virðast ekki bara sérhæfa sig í glæpum á borð við kynferðisafbrot, heldur virðast í raun og sann trúa því að kvikindin sem þeir eru að verja séu heilbrigðir karlmenn til sálar og líkama (og þarafleiðandi með eðlilega og sterka kynhvöt) sem óvart rekist á harðsvíraða atvinnu-kærendur sem bíða færist að saka litlu greyin um nauðgun eftir vel heppnaðar samfarir sem báðir aðilar voru ægilega happí með. Þessir lögmenn eru svo sannfærðir um sakleysi skjólstæðinga sinna, að hvort heldur þeir eru sýknaðir eða dæmdir sekir, þá eru þeir tilbúnir að stíga fram fyrir skjöldu og ávíta almenning fyrir það glapræði að standa með fórnarlambi nauðgarans.

Þetta gerði Örn Clausen, þegar hann var verjandi nauðgara í fjölmörgum málum áratugum saman, og kom þá bæði í viðtöl í fjölmiðlum og skrifaði greinar. Ekki man ég orðrétt allt sem hann sagði, en meðal annars sagði hann að íslenskar konur hegðuðu sér alltaf eins og druslur, og var þá að tala um nauðganir. Fyrir ekki svo löngu skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson (sem nú er innmúraður og innvígður Hæstaréttardómari í boði Björns Bjarnasonar, Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde) í blöð til að verja sinn uppáhaldsnauðgara og var dyggilega studdur af sonum sínum frjálshyggjusnúðunum. Og nú í dag opnaði Sveinn Andri Sveinsson bloggsíðu til þess eins að hneykslast á „múgæsingu“ vegna þess að nauðgarinn hans fær að ganga laus (og er mest sár fyrir hans hönd að hann skuli hafa verið í gæsluvarðhaldi, enda mest gaman þegar menn fá að ganga lausir til að nauðga meira. Fyrirtaksdæmi er mál Jóns Péturssonar, sem misþyrmdi og nauðgaði enn einni konu meðan hann beið eftir að dómur félli í eldri málum hans af sama toga. Sveinn Andri varði hann líka).

Allir eiga þessir lögmenn það sameiginlegt að vera svo hlynntir nauðgunum að þeir geta ekki á sér setið að breiða út boðskapinn að konur séu druslur sem þarf að nauðga sem oftast. Og þeir hafa mennina til verksins.

Efnisorð: , , ,