föstudagur, júní 22, 2007

Súrt regn fyrir hádegi, brennisteinsþoka síðdegis, spretta léleg á Suðurlandi

Umræður um álver við Þorlákshöfn eru rétt nýhafnar og ég veit svosem ekki hversu stórt álverið er sem er í bígerð, svona í samanburði við álverið í Straumsvík, né hvernig mengunin af því yrði, né heldur hvar nákvæmlega það yrði staðsett. En mér finnst hjóma sem mikið glapræði að setja mengandi stóriðju þar sem landbúnaður og fiskeldi er í nágrenninu, eins og reyndin er í Flóanum og Ölfusinu. Í Flóanum eru sauðfjárrækt og kúabú - semsagt kindakjöt og megnið af mjólk þeirri sem fer til Mjólkurbús Flóamanna - langar okkur til að neyta þeirra afurða þegar álver og meðfylgjandi flúor og brennisteinsdíoxíð verður búið að bragðbæta skepnufóðrið? Og gróðurhúsin í Hveragerði, þar sem ræktaðir eru tómatar og agúrkur – hvernig verður bragðið af þeim? Eða munum við ekki finna bragðið, bara innbyrða nýju aukaefnin?

Ég er ein þeirra sem var á móti Kárahnjúkavirkjun m.a. vegna áhrifa á dýralíf og gróður. Ég var líka á móti því að reist yrði álver á Reyðarfirði og álverið við Straumsvík yrði stækkað; vegna mengunar og raforkuþarfar sem hvetur til virkjana. Auk þess hef ég verið á móti öllum þessum framkvæmdum vegna áhrifa á hagkerfið og innflutnings útlendinga í þrælavinnu. Ekki eru allir sammála mér um þessi atriði eins og sást á klofningnum í atkvæðagreiðslunni um stækkun álversins í Hafnarfirði. Er þá einhver von til þess að bændur á Suðurlandi muni sameinast gegn álveri í túnfætinum hjá sér og reki þessa óværu af höndum sér?

Ég var þakklát bændum þegar þeir frelsuðu okkur frá klámráðstefnunni, nú heiti ég á að þeir bjargi okkur aftur.

Efnisorð: ,