miðvikudagur, júní 20, 2007

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd

Oft heyrist að það þurfi að forða konum frá því að láta eyða fóstri því þær sjái eftir því alla ævi. (Sjaldnar heyrist að það þurfi að forða konum frá að eignast börn vegna þess að þær gætu séð eftir því síðar. Þó heyri ég a.m.k. oft að konur hefðu viljað bíða með barneignir, ekki eiga eins mörg börn eða hreinlega ekki eignast börn en létu undan þrýstingi eða hreinlega lögðu ekki í fóstureyðingu.) Allar konur sem farið hafa í fóstureyðingu virðast, samkvæmt þessu, vera með sömu tilfinninguna: Sektarkennd. – Hvaðan ætli hún komi?

Þeir sem helst vilja að konur hafi samviskubit eru þeir sem eru á móti fóstureyðingum, og það eru þeir sem herja á konur með því að tala sífellt um fósturvísana og fóstrin sem ‘börn’ og að fara í fóstureyðingu sé ‘að drepa barn’. Þeir vilja að konum verði gert skylt að sjá andstyggilegar kvikmyndir (t.d. The Silent Scream sem sýnd var á Omega) sem sýna aðgerðina frá sjónarhóli fóstursins og gera mikið úr kvöl þess og neyð. Myndin á að virka sem forvörn (ekki getnaðarvörn þó, því sumir þeirra eru líka á móti þeim) og fæla konur frá að fara í aðgerðina. Þær konur sem hafa séð svona mynd, lesið áróðurinn og heyrt skammirnar, fá öðrum fremur sektarkennd, hefði ég haldið. Hinar telja sig örugglega margar hafa tekið rétta ákvörðun miðað við aðstæður og spá ekki mikið meir í það, þó auðvitað séu undantekningar á því eins og öðru.

Í hverjum vinkonuhóp er einhver kona sem hefur farið í fóstureyðingu og það er mín skoðun, byggð á reynslu (þó það séu engar tölfræðilegar sannanir fyrir því) að konur hafi ekki sérlega mikið samviskubit yfir að hafa hagað málum sínum á þennan veg, nema í mesta lagi rétt á meðan einhver andstæðingur fóstureyðinga er að messa yfir þeim.

Ein kona sem ég þekki segist ekki frekar hafa samviskubit yfir að hafa látið eyða fóstri en að hafa látið fjarlægja ógnvekjandi fæðingarblett, hvort um sig ógnaði tilveru hennar þó á mismunandi hátt væri og hvorugur frumuklasinn vakti með henni neinar tilfinningar aðrar en feginleik að vera laus við hann.

Efnisorð: ,