miðvikudagur, júní 20, 2007

Fóstureyðingar verða að vera löglegar

Konur sem verða óvart óléttar og vilja ekki eignast barn munu leita annað, séu fóstureyðingar ekki löglegar og framkvæmdar á heilbrigðisstofnunum. Í staðinn yrðu þær gerðar við lélegar hreinlætisaðstæður á varasaman hátt og gætu haft hræðilegar afleiðingar, jafnvel leitt til dauða konunnar. Andstæðingar fóstureyðinga hugsa kannski sem svo að konurnar eigi ekkert betra skilið og jafnvel að sú áhætta myndi virka fælandi á þær konur sem hygðust eyða fóstri. Þannig yrði færri fóstrum eytt. Það má vera, þó þær yrðu margar eftir sem áður, því margar konur myndu frekar vilja taka áhættuna á dauða en ganga með og fæða. Fóstureyðingar myndu ekki minnka nógu mikið til að réttlæta fórnarkostnaðinn, þ.e. heilsufarsvandamál eða dauða kvennanna.

Fæstir þeirra sem tala gegn fóstureyðingum þora annað að segja að undantekningar megi gera þegar konum hefur verið nauðgað eða líf konunnar sé í hættu. Í sumum löndum er þó enn alfarið bannað að eyða fóstri, hvernig sem það er til komið. Þannig er málum háttað í Chile, El Salvador, Írlandi og Costa Rica. (Rosita var átta ára gömul þegar henni var nauðgað og varð barnshafandi en henni var meinað um fóstureyðingu af yfirvöldum, bæði á Costa Rica og Nicaragua, heimalandi hennar, enda þótt bent væri á að líf hennar væri í hættu. Málinu lyktaði þó þannig að henni var heimilað að fara í aðgerðina.) Í mörgum ríkjum Afríku og Asíu eru fóstureyðingar aðeins heimilar ef heilsa eða líf konunnar er í hættu en ekki ef henni hefur verið nauðgað. (Alveg er ég sannfærð um að þegar fóstureyðing er leyfð vegna þess að annars myndi konan deyja, þá er það vegna þess að þá er reiknað með að betra sé að hún lifi áfram til að geta átt annað barn í staðinn – og helst mörg börn – í framtíðinni, ekki vegna þess að líf hennar sé svo mikils virði.)

Fóstureyðingar eru ekki frjálsar á Íslandi, heldur heimilar sé líf eða heilsa konunnar í hættu, henni hafi verið nauðgað, fóstrið sé ekki lífvænlegt eða geti verið alvarlega fatlað eða vegna félagslegra aðstæðna konunnar, s.s. að hún eigi mörg börn fyrir eða geti ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt. Semsagt, geti kona sýnt framá, og fengið tvo aðila (tvo lækna eða lækni og félagsráðgjafa) til að samsinna sér um að hún geti ekki átt barn vegna félagslegra- eða læknisfræðilegra ástæðna, þá má hún fara í fóstureyðingu. (Lög nr. 25, sett árið 1975.) Í flestum löndum, þ.m.t. Bandaríkjunum – þar sem sífellt er verið að reyna að koma í veg fyrir fóstureyðingar – getur kona fengið fóstureyðingu án þess að nokkur utanaðkomandi aðili (læknir, félagsráðgjafi) hafi neitt um það að segja, og hún þarf ekki að gefa upp ástæður sínar.

Hér er rétt að geta um 'eftirápilluna', sem oft er ruglað saman við RU 486 (Mifepristone), sem er ekki leyfileg hér á landi, en það er lyf sem kallað er „fóstureyðingapilla“ og hægt er að taka á fyrstu tveimur mánuðum meðgöngu og veldur fósturláti. Konur í Bandaríkjunum, þar sem RU 486 pillan er leyfileg, eru oft ásakaðar um að éta hana eins og Smarties, en raunin er sú að henni fylgja slíkar aukaverkanir að hana tekur engin kona að gamni sínu. Neyðargetnaðarvörn er afturámóti fáanleg hér og verður að taka hana innan þriggja sólarhringa (seinasta lagi 5) frá samförum þeim sem gætu hafa leitt til getnaðar, og festist þá hið frjóvgaða egg ekki í leginu. Því er hreint ekki um fóstureyðingu að ræða.

Efnisorð: ,