miðvikudagur, júlí 18, 2007

Raunsæir umbótasinnar eða bitrar kellingar sem hata karlmenn?

Sumt fólk segir að konur sem eru feministar hati karlmenn og yfirleitt þá bara útaf því að einhver karlmaður hafi farið illa með þær eða svikið þær á einhvern hátt. Ekki ætla ég að efast um að slík reynsla sitji í konum, en yfirleitt þarf nú meira til en einhvern einn karlmann í eitt afmarkað skipti. Allflestar konur kynnast einum eða fleiri skíthælum á ævinni, en auk þess heyra þær og sjá vinkonur sínar líka lenda í mönnum sem svíkja þær, berja eða nauðga. Þegar svo við bætist að öll tölfræði hnígur í eina átt; að karlmenn beri ábyrgð á kynferðisofbeldi og öðrum líkamsmeiðingum, bæði gagnvart konum og öðrum körlum, hvernig er þá hægt að álykta öðruvísi en það sé eitthvað rotið í veldi karla?

Og þar sem konur sem eru feministar eru á móti klámi, vændi og nauðgunum, þá berjast þær gegn því og benda á í leiðinni að allt þetta séu birtingarmyndir valdbeitingar karla. Þetta finnst karlmönnum vera karlhatur. Hvernig er þá kvenhatur? Kannski það að vilja ekki sjá konur nema naktar? Vilja aldrei kjósa þær til ábyrgðarstarfa en heimta að þær fái sér sílíkon, er það ekki kvenhatur? Og að berja og nauðga, er það ekki kvenhatur? Eða kaupa sér afnot af líkama konu bara til að fá útrás á henni? Flestir feministar sem ég þekki gera allt hvað þær geta til að styggja ekki karlmenn, því þær hata þá allsekki, heldur reyna að tala við þá og um þá af virðingu. Getum við þá tryggt að þær verði aldrei fyrir barðinu á karlhatri? Vill einhver lofa að þær þurfi aldrei að sjá klámfengnar auglýsingar, verði aldrei hótað ofbeldi og geti alla tíð verið vissar um að verða aldrei nauðgað?

Í 98% tilvika eru það karlmenn sem nauðga konum, börnum og öðrum karlmönnum.
90% allra ofbeldisglæpa eru framkvæmdir af karlmönnum, hvort sem þeir beinast gegn konum, börnum eða öðrum karlmönnum.

Er skrítið að karlmenn séu gagnrýndir, tortryggðir, jafnvel hataðir? Er sérstök ástæða að gagnrýna feminista eða konur almennt fyrir að hafa orð á þessari hegðun?

Efnisorð: , , , , ,