miðvikudagur, júlí 11, 2007

Slá í gegn - tíu árum síðar

Þegar ég fletti í gegnum öll þessi gömlu blöð sem tepptu eðlilega umferð um geymsluna, þá rak ég augun í allskyns umfjöllun um fegurðarsamkeppnir og stelpurnar sem tóku þátt í þeim. Þetta voru litlar keppnir eins og Ungfrú Tungl og líka sú stærsta, Ungfrú Ísland, auk ýmissa módelkeppna. Nöfn keppenda fylgdu með myndunum af þeim auk athugasemda um útlit þeirra og stöðu í samfélaginu („megagella“). Nú veit ég að oft fara stelpur í svona keppnir til að koma sér á framfæri og einhverjar eða flestar dreymir um frægð og frama í módelbransanum eða öðrum útlitstengdum greinum, s.s. kvikmyndum. Það sorglega við þetta er að ég kannaðist við nákvæmlega eitt andlit, og það var andlit konu sem síðar tók saman við gamlan skallapoppara. Allar hinar hafa fallið í gleymskunnar dá og þátttaka þeirra í keppnum þar sem líkamsvöxtur og andlitsfegurð skiptu mestu máli, varð þeim ekki til þess álitsauka sem þær líklega þráðu. Ég hef það reyndar fyrir satt, og hef það eftir konum sem ég kannast við og eiga feril að baki í slíkum keppnum, að þær líti á þátttöku sína sem vandræðalegt bernskubrek og vilji helst aldrei vera minntar á hana. Samt er því endalaust logið að stelpum að þetta verði þeim ómetanleg lífsreynsla og muni efla sjálfstraust þeirra gríðarlega, svona fyrir utan að gera þær frægar, ríkar og eftirsóttar.

Í Sirkus, fylgiriti Fréttablaðsins, 6. júlí síðastliðinn var viðtal við stelpu sem er að fara að taka þátt í einhverri svona keppni. Fyrirsögnin er: „Vonast eftir viðurkenningu fyrir fallegan vöxt.“ Ææææ.

Efnisorð: ,