fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Það mjakast

Ég held að það fari mér betur að skrifa um það sem mér finnst vera gagnrýnivert heldur en fjalla um góða hluti og skemmtilega. Enda eðli þessa bloggs að vilja geri heiminn betri en ekki lýsa því yfir að við búum í besta heimi allra heima. Því það er sannfæring mín að svo sé ekki. En stundum er eins og stigið hafi verið hænuskref í áttina og jaðrar við að hægt sé að trúa að alt í þessum heimi miðaði til hins besta.

Nokkrar góðar fréttir
Ekki fylgist ég neitt að ráði með íþróttum og hef aldrei silast til að skrifa um árangur íslenskra fótboltakvenna, enda þótt mér finnist þær eiga allt gott skilið, þ.m.t. aðstöðu, laun og styrki. Það að gladdi mig þó að heyra að Líney Rut Halldórsdóttir hafi verið ráðin framkvæmdastjóri ÍSÍ , bæði vegna þess að ég vil sjá jafnmargar konur og karla í allrahanda stjórnunarstöðum, en líka vegna þess að í framtíðinni vaxa vonandi upp kynslóðir kvenna sem finnst íþróttir líka vera fyrir konur (bæði að skipuleggja og taka þátt í íþróttum og að eiga þátt í að semja um þær reglur, hvað þá stýra í hvað fjármunir íþróttahreyfingarinnar fara). Það var eiginlega ekki stemningin langt fram eftir minni ævi og á örugglega sinn þátt í því hvað mér finnst flestar íþróttir óáhugaverðar, sérstaklega fótbolti.

Það lá við að ég tryði ekki eigin eyrum þegar ég heyrði að í Héraðsdómi Vestfjarða hefði karlmaður verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Í fyrsta lagi leið ekki nema rúmur mánuður frá því að karlmaðurinn skaut konuna sína og í öðru lagi virtist dómurinn gefa til kynna að karlmenn mættu bara allsekki reyna að drepa konur, ekki einu sinni sínar eigin. Þetta er ótrúlega gleðilegt, ekki síst í ljósi þess hvernig dómur féll nýlega í máli nauðgarans á Hótel Sögu. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef áhyggjur af því að Hæstiréttur snúi annaðhvort dómnum við eða mildi hann verulega.

Í dag bárust svo fréttir af því að nektardans væri bannaður á Goldfinger. Eins og áður, þá efast ég stórlega um að þetta sé satt (allur nektardans? ekki bara einkadans?) og ef svo er þá finnst mér líklegt að eigandanum og stórvinum hans takist með einhverjum hætti að snúa þessu sér í hag. En vonandi verður bara helvítis búllunni lokað.

Í framhaldinu mætti Reykjavíkurborg gera gangskör að því að loka ‘kampavínsklúbbunum’ sem opnaðir voru í miðborginni í fyrra, og svo auðvitað Bóhem, Óðali og Vegas.* Þá mætti kannski halda því fram að „alt sé í allrabesta lagi.“

___
*Eru þessar klámbúllur ekki annars enn við lýði?

Efnisorð: , , , ,