þriðjudagur, september 04, 2007

„Munurinn“ á klámi og erótík

Stundum snýst umræða um klám uppí skilgreiningar á hvað sé klám og þá er reynt að kalla einhvern hluta þess ‘erótík’. Þannig var t.d. stripp kallað ‘erótískur listdans’ eða eitthvað álíka fáránlegt fyrst þegar strippstaðirnir tóku til starfa. Mörgum finnst líka erfitt að viðurkenna að þeir fíli klám og vilja því kalla það sem þeir horfa á sér til ánægju erótík en það sem „hinir“ horfa á sé klám.

Stundum hafa mér verið sýndar svarthvítar ljósmyndir af nöktu fólki sem er í einhverjum stellingum sem fela ýmist eða sýna kynnæm svæði líkamans eða þau svæði sem hinu kyninu þykja hvað forvitnilegust. Er þá ætlast til að ég samþykki að um erótík sé að ræða en ekki klám. Ég svara því þannig að hafi fyrirsætan fengið greitt fyrir að koma nakin fram, ljósmyndarinn fái borgað fyrir að mynda hana, kaupandi sé að myndinni og fólk kaupi hana eða glápi á hana vegna kynþokka líkamans eða sér til örvunar – eitt þessara atriða og þá sé um klám að ræða. Ef þetta er ljósmynd (eða kvikmynd) sem karl tók af konu sinni (eða öfugt) sér til ánægju og skemmtunar – þá spyr ég hvað það eigi að þýða að blanda mér eða öðrum inní þeirra prívatlíf með þessum hætti og flokka myndina sem klám. Hið ‘listræna klám’ er gert af listamönnum (málað eða myndað) og sýnt og selt - oft undir formerkjum erótíkur - en alltaf hef ég nú efasemdir um heilindi þeirra listamanna sem hafa ægilega mikinn áhuga á að sýna naktar konur.

Á allmörgum kvikmyndahátíðum er ein eða fleiri myndir með klám sem meginefni, en þá er sagt að þær séu erótískar eða talað um listrænt gildi nektarinnar. Sé verið að sýna fólk í samförum, alveg sama þótt í hefðbundinni kvikmynd þar sem samfarasenan er bara ein og restin af myndinni fjalli um allt annað, þá er um klámsenu að ræða.

Sé efni myndarinnar BRJÓST, TIPPI, PÍKA, RÍÐA, þá er um klámmynd að ræða, alveg burtséð frá hve margir þátttakendurnir eru, á hvaða aldri þeir eru eða í hvaða stellingum.

Í stuttu máli sagt: ‘Erótískar myndir’ eru ekki til. Og því er enginn munur á erótík og klámi.

Það er enginn munur á kúk og skít.

Efnisorð: ,