mánudagur, september 17, 2007

Og rigningin er blaut

Karlmaður, sem bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur voru sammála um að væri sekur um nauðgun, var dæmdur í þriggja og hálfsárs fangelsi í Hæstarétti.* Áður hafði Héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að nauðgarinn ætti að vera fjögur ár bak við lás og slá, fjórfalt skemur en refsiramminn leyfir. Semsagt; áfrýjunin borgaði sig fyrir nauðgarann, enda þótt allir væru sammála um að hann væri sekur.

En þetta er svosem partur af því að draga úr því að konur kæri nauðgarana. Fyrsta hindrunin er löggan, þar er flestum kærum vísað frá. Þær sem komast fyrir dómstóla lýkur yfirleitt með sýknudómi, hinar enda með hlægilegum dómum. Svo er nauðgurunum sleppt út aftur, ýmist eftir sýknudóminn eða eftir að hafa setið af sér hluta dómsins, sem þó var lágur fyrir, og þeir geta farið að nauðga aftur. Sem er sérdeilis hugguleg tilhugsun fyrir allar konur, en þó sérstaklega þær sem þegar hafa orðið fyrir barðinu á þeim.

Það tekur því varla að æsa sig yfir þessu. Það er eins og að tryllast yfir því að rigning sé blaut. Þetta-bara-er-svona.

___
* Eins og í öllum svona málum þá er lýsingin á nauðguninni mjög ógnvekjandi og fólk varað við að lesa hana. Tengingin er hér fyrst og fremst til að benda á niðurstöðu dómaranna, en þau eru: Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Efnisorð: ,