Óvinir óvinar míns vilja ekki vera memm
Réttindabarátta kvenna, eða sú bylgja hennar sem reis upp á sjöunda áratugnum á Vesturlöndum, hélst mjög í hendur við réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Í kjölfarið kröfðust svo samkynhneigðir einnig réttinda. Kvenréttindakonur þær sem á þessum tíma fóru að rífa kjaft, voru velflestar menntaðar millistéttarkonur (hvítar og gagnkynhneigðar) þó ekki allar. Þær litu svo á að rót allra vandamála og misréttis gegn konum væri að finna í karlveldinu og að völd kristinna, hvítra, gagnkynhneigðra karla (sem sumir eru kallaðir WASP eða White Anglo-Saxon Protestant, með vísun í evrópskar rætur þeirra) væru á kostnað allra hinna sem ekki væru karlkyns, hvítir og gagnkynhneigðir. Af þeim sökum hafa kvenréttindakonur staðið með baráttu svartra og samkynhneigðra alla tíð.
Og líklega er það af sömu ástæðu sem margar menntaðar konur á Vesturlöndum hafa gerst málsvarar múslima í þeim tilvikum þar sem hinir hvítu Evrópubúar hafa amast við því að þeir flytjist til Evrópu eða þegar Bandaríkin ráðast inní lönd þar sem múslimar eru í meirihluta íbúa (eða í tilviki Ísrael sem Bandaríkin styðja heilshugar í stríðinu gegn Palestínu). Þetta þykir mörgum fjarstæða, enda hægt að benda á margt afarslæmt sem viðgengst hjá múslimum í nafni islam; sæmdarmorð, umskurður, nauðungarhjónabönd, skerðing á ferðafrelsi, skylda að ganga með höfuðblæjur eða í búrku, o.s.frv. Og allt á þetta við um konur, þ.e. frelsi kvenna er skert og kynfrelsi þeirra fótum troðið. Ekki veit ég um nokkra konu sem segir að þetta sé í lagi eða vill ekki breyta þessu. En samt hafa velmeinandi menntaðar konur varið múslima gegn kristnum hvítum körlum.
Það er svosem ekki eins og það sé í fyrsta sinn sem konur (menntaðar kvenréttindakonur semsé) hafa varið þá sem vilja ekki veg þeirra mestan: ekki hefur mér sýnst karlkyns bandarískir blökkumenn hafi vandað konum kveðjurnar þrátt fyrir allan stuðninginn. Rapptextar eru t.d. uppfullir af kvenfyrirlitningu og svartar konur kvarta talsvert undan framkomu svartra karla við sig. Samkynhneigðir karlmenn eru ekki allir ‘bestu vinir’ kvenna (þó annað megi halda af sjónvarpsþáttum eins og Sex and the City og Will&Grace), heldur eru sumir þeirra haldnir megnri kvenfyrirlitningu, rétt eins og aðrir karlmenn.
Við, þessar velmeinandi kvenréttindakonur, sem erum svo gjarnar á að standa með öllum sem eiga við sama vanda að etja og við sjálfar (nú þori ég ekki að segja ‘eiga við sama óvin að etja’ því ekki líta nú allir feministar svo á, né heldur samkynhneigðir eða svartir) en fá vart nema skít og skömm í staðinn. Laun heimsins eru vanþakklæti.
En jú, kannski ætti kona að snúa sér að því að rækta bara sinn eigin evrópska garð og líta ekki upp þó homminn í næsta húsi sé barinn eða svarta konan í hinu húsinu verði fyrir ofsóknum eða músliminn sem er nýfluttur til landsins fái ekki að flytja í húsið á móti. Maður verður jú að rækta garðinn sinn.
___
[meðfylgjandi mynd er eftir Halldór Baldursson, tekin af bloggi hans (halldor2006.blog.is) og varð kveikjan að þessum hugleiðingum]
Efnisorð: feminismi, Innflytjendamál, karlmenn, rasismi, trú
<< Home