föstudagur, október 12, 2007

Ekki að mér finnist það í lagi, en hvað um

Þegar talað er um mannréttindabrot í Kína (svosem aftökur) og ég nefni mannréttindabrot Bandaríkjamanna (svosem aftökur og pyndingar á föngum grunuðum um hryðjuverk),
- Þegar talað er um hvernig konur eru kúgaðar í islam og ég fer að tala um hvernig kristnir öfgatrúarmenn kúga konur (innan sinnan raða og vilja afnema réttinn til fóstureyðinga) og almennt um hve kristni sé ekkert skárri en islam (krossferðirnar, andstaða við getnaðarvarnir og fóstureyðingar),
- Þegar talað er um búrkuna og ég fer að tala um þá kúgun vestrænna kvenna sem felst í því að ‘þurfa að vera sexý’,

þá er það ekki vegna þess að mér hafi fundist frábært hjá Maó að svelta þjóð sína eða hjá núverandi stjórnvöldum í Kína að selja vestrænum stórfyrirtækjum aðgang að ódýru vinnuafli og taka fólk af lífi í massavís, eða að mér finnist islam frábært á nokkurn einasta hátt og ég hef andstyggð á búrkunni.

Né er það vegna þess að ég vilji drepa málum á dreif og vilji ekki ræða það sem aflaga hefur farið eða er að í Kína, samfélagi öfgasinnaðra múslima, eða hvað það nú er sem umræðan snýst um í það sinnið.

- Heldur finnst mér sú aðferð að sjá alltaf flísina í augum þess náunga sem býr fjærst okkur og er okkur minnst skyldur einkennilegur þegar heima fyrir blasa mörg vandamál sem okkur væri nær að velta okkur uppúr. Og nei, ég er ekki að segja að mér sé sama um konur sem eru þvingaðar til að ganga í búrku eða um almenning í Kína, síður en svo (og vil berjast fyrir þeirra rétti), en það vill svo til að þeir sem helst vilja ræða þau mál eru yfirleitt þeir sem neita að horfast í augu við að hinn hvíti kristni gagnkynhneigði vestræni karlmaður er sá sem veldur mestum vandræðum á plánetunni í heild sinni og þá í garðinum heima hjá sér sérstaklega.

Svo finnst mér svona umræður líka alltaf einkennast af rasisma.

Efnisorð: , , , , ,