laugardagur, desember 01, 2007

Er Ríkissjónvarpið fyrir okkur öll eða bara karla sem þola ekki kerlingavæl?

Auðvitað á ekkert að tala við konur nema um þeirra sérstöku áhugamál. Matseld og barnauppeldi, eru það ekki það sem þær tala mest um. Æ, feministar, þær eru nú ekki almennilegar konur. Eru ekki feministar alltaf að tala um jafnrétti og klám og svoleiðis? Þá er auðvitað bara talað við þær um klám og jafnrétti, ja svona þegar það er gert að umtalsefni á annað borð (en þess þá auðvitað gætt að hafa einhvern eindreginn andstæðing feminista í öllum málum á móti þeim, það er nefnilega svo miklu meira gaman að rifrildum en rökræðum). Það er alger óþarfi að kalla til einhverja feminista þegar er verið að tala um utanríkismál (nema þessa einu sem beinlínis hefur þau á sinni könnu í ríkisstjórn) eða sjávarútvegsmál, eða skipulagsmál, efnahagsmál o.s.frv. Það kemur auðvitað ekkert feministum við, því varla eru konur að vinna við sjávarútveg eða kemur þeim við efnahagsstefna, vaxtaokur bankanna og skipulagsmál í borginni þar sem þær búa?

Þetta er eins og með heyrnarlausa. Alveg nægir þeim að það sé settur texti við fréttir sem fjalla um málefni heyrnarlausra (og svo nægir þeim að hafa sér fréttatíma klukkan 17:20 á daginn, þau þurfa ekkert myndskreyttar fréttir eða sjá viðtöl eða svoleiðis, hafa örugglega ekkert gaman að því, þau eru svo öðruvísi en við). Hafa þau hvorteðer nokkurn áhuga á neinu sem kemur ekki beinlínis þeim sjálfum við? Aldrei koma þau í sjónvarp til að tala um neitt annað – þessvegna getur ekki verið að þau hafi áhuga á að ræða hvað verður um skattanna þeirra eða hvernig haga eigi trúarbragðakennslu í skólum eða hvort orkufyrirtæki í eigu sveitarstjórna eigi að vera í útrás. Heyrnarlausir hafa nefnilega bara áhuga á að horfa á fréttir og taka þátt í þeim þegar einhver þeirra er að pata eitthvað útí loftið. Svona eins og feministarnir. Þær koma bara í sjónvarp til að kvarta yfir klámi, og eru þær þá ekki sáttar við það?

Í framhaldi af þessu má nefna að tveir karlmenn skrifuðu í Fréttablaðið í dag (en karlar mega hafa áhuga á hverju sem þeir vilja og segja skoðun sína hvar og hvenær sem er) um það hvort konur, þ.e.a.s. feministar, eigi að fá að tala í sjónvarpi og hvort þær megi kvarta yfir því að fá minna að tala í sjónvarpi en þær vilja. Ég verð að segja að Sverrir Jakobsson hélt algerlega stöðu sinni í mínum huga en afturámóti hrapaði Þorsteinn Joð verulega í áliti hjá mér.

Efnisorð: , , ,