miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Ekki bara Pólverjarnir sem klípa og káfa

Mikið er annars ánægjulegt að loksins eigi að útiloka karlmenn frá skemmtistöðum. Vertinn á Kaffi Akureyri gengur á undan með góðu fordæmi og fordæmir dónalega framkomu við kvenfólk og ætlar ekki að líða að karlmenn séu „oft dauðadrukknir og haga sér eins og ruddar; vaða í klofið á kvenfólki og virðast halda að allar stelpur sem eru einar á ferð séu tilkippilegar.“

Það er bara einn misskilningur, sem ég er viss um að vertinn mun leiðrétta, og aðrir fylgi í kjölfar hans: Hegðun sem þessi er ekki ný af nálinni á Íslandi og einskorðast ekki við Pólverja. Eins og allar aðrar konur sem hafa farið á skemmtistaði þá hef ég séð slíka hegðun milljón sinnum og orðið fyrir henni sjálf. Karlmönnum virðist fyrirmunað að skilja að til séu konur sem vilja fara út að skemmta sér öðru vísi en með því markmiði að sofa hjá fyrsta karlmanni sem grípur (með mismunandi fantalegum hætti) í líkamsparta þeirra eða tekur ómótstæðilegum tilboðum um kynlíf; heldur koma til að dansa og spjalla við vinkonur sínar.

Mér er minnisstætt þegar vinur minn, þá rúmlega tvítugur, sagði mér frá því þegar hann var á skemmtistað og einhver strákur kreisti rasskinnarnar á kærustunni hans þar sem þau stóðu í faðmlögum og töluðu saman. Hann varð forviða á að einhver skyldi leggja í að gera slíkt við konu sem væri hreinlega í fanginu á karlmanni sem væri tæpir tveir metrar á hæð. En kærastan hans yppti víst bara öxlum og sagði að þetta væri ekkert á við hvernig ágangurinn væri þegar hún væri ein á ferð. Það sem vini mínum varð ljóst var að til væru karlmenn sem virtu allsekki eignarrétt hans á konu þegar komið væri á skemmtistað; það sem kærustunni hans var löngu orðið ljóst var að ekki nokkur maður virti eignarrétt hennar á hennar eigin líkama. Er ekki svolítið sorglegt að strax um tvítugt séu konur orðnar alvanar því að hver einasti karlmaður líti á þær sem einhvern hlut sem þeir mega fá útrás á, hvar og hvenær sem er með þeim hætti sem þeir vilja hverju sinni? Og konur verða bara að kyngja því ef þær ætla að stunda skemmtanalífið, að láta káfa á sér, annars verður stórkostlegt uppnám? (Uppnámið verður ef konan vogar sér að reyna að stöðva slíkt athæfi, með orðum eða athöfnum – og það eru hreint ekki allir dyraverðir sem henda mönnum út „sem vaða í klofið á kvenfólki“.)

Reyndar held ég að flestum konum þætti súrt í broti að öllum karlmönnum yrði bannaður aðgangur að skemmtistöðum. En kannski ættu samt karlmenn að líta í eigin barm, í stað þess að fordæma Pólverja, og velta fyrir sér hvort þeir séu nokkuð skárri. En líkurnar á að karlmenn setjist niður með vinum sínum og segi: „Strákar, við ættum að endurskoða hvernig við lítum á konur og hvernig við komum fram við þær, bæði þegar við erum fullir og ófullir.“ Eitthvað segir mér að það sé ekki heitasta umræðuefni karlmanna í kaffitímanum í dag.

Efnisorð: ,