sunnudagur, desember 23, 2007

Babbi segir, babbi segir

Í Fréttablaðinu í dag, á bls. 2, er stutt viðtal (líklega unnið uppúr fréttatilkynningu) við formann Félags um foreldrajafnrétti þar sem hann kvartar undan jólaósk Femínistafélagsins, þar sem Askasleikir óskar sér að karlar hætti að nauðga. Formaður Félags um foreldrajafnrétti segir jólaóskina ekki hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og félagið skorar á Femínistafélagið að viðurkenna að óskin hafi verið mistök, hún sé óábyrg og smekklaus.

Undanfarið hafa bloggheimar logað af enn einni vandlætingunni á helvítis frekjunni í feministum, nú vegna þessarar jólaóskar (sem mér skilst að sé ekki raunverulegt jólakort og því sé engin hætta á að börn fái þau send eða yfirhöfuð sjái þau – nema í Fréttablaðinu, þar sem kortið/óskin er birt). Sumir æpa að það sé ósmekklegt að tengja nauðganir við jólin, aðrir einblína á að aðeins 98% nauðgana séu framdar af körlum og vilja þá auðvitað að talað sé um þessi 2%, svona eins og þegar þeim er bent á að allt að 90% kvenna í kynlífsiðnaðinum séu þolendur sifjaspella og annars kynferðisofbeldis, þá vilja þeir alltaf tala um þau prósent sem hljóti þá að vera einstaklega hamingjusöm í starfi. Mistök Femínistafélagsins eru að mati þessara karlmanna eru líka að segja ekki að óskin sé að örfáir karlmenn, algerar undantekningar bara en enginn karlmaður sem þeir myndu vilja þekkja sko, nauðgi kannski pínulítið og þeir eigi að að hætta því en það sé mikilvægt að benda á að KONUR verði að passa sig – eða eitthvað álíka.

Ég nenni ekki alveg að elta ólar við þær úthrópanir á feministum sem í gangi eru í bloggheimum, hafði ætlað mér að ræða þær í einhverju heildarsamhengi en ekki enn komið því í verk. Nú langar mig afturámóti að fjalla aðeins um þetta ‘nýja’ félag, Félag um foreldrajafnrétti, en af frétt/viðtali Fréttablaðsins í dag að dæma er þetta afar jafnréttissinnað félag með hagsmuni barna að leiðarljósi og ætti því að vega þungt í allri umræðu um velferð barna og jafnrétti okkar allra.

Í blöðunum 11. nóvember síðastliðinn var auglýsing um ráðstefnu um foreldrajafnrétti.* Athygli vakti að aðeins tvær konur voru auglýstar sem frummælendur – en venjan er sú að karlar halda sig víðs fjarri þegar talað er um foreldrahlutverk og uppeldi barna. Kom enda á daginn að Félag um foreldrajafnrétti er nýtt nafn á félagsskap sem lengi hefur heitið Ábyrgir feður, en það er félag sem hefur verulegt horn í síðu feminisma. Konur eru, samkvæmt Ábyrgum feðrum, til óþurftar í stjórnkerfinu og vinna gegn hagsmunum karla. Ábyrgir feður hafa mestar áhyggjur af meðlagsgreiðslum og þykir ósvinna að þurfa að borga með uppihaldi barna sinna. Þá er sjaldan eða ekki talað um hversu ábyrgir feður ættu að vera meðan þeir eru í sambúð með barnsmæðrum sínum heldur snýst barátta þeirra um yfirráð yfir börnunum eftir að sambúð er slitið. Það er sem þeim finnist eignarréttur þeirra sé aðalmálið en það sé nægilegt að eiginkonan sjái um börnin meðan hennar nýtur við, eftir það snýst allt um að merkja börnin sem sína eign.

Ábyrgir feður eru mjög uppteknir af og vísa oft í bandarískar rannsóknir sem sýna hve illa fer fyrir börnum sem alast upp án föðurs, en líta um leið algerlega fram hjá því að í Bandaríkjunum geta menn stungið af frá konu og börnum og sleppt því að borga meðlag (öfugt við það sem tíðkast hér á landi sér hið opinbera ekki um að hlaupa í skarðið fyrir þá). En þá eru þeir iðulega komnir til annarra ríkja og sjá því börnin ekki aftur. Börnin alast því upp við þröngan kost og algera höfnun af hálfu föðursins. Það er það sem kippir undan þeim fótunum svo stundum verður ekki aftur snúið; ekki að barnsmóðirin hafi verið svo grimm að leyfa ekki föðurnum að hitta börnin.

Einhverju sinni birti Morgunblaðið grein frá Ábyrgum feðrum og var þar vísað í einhverja rannsókn sem sýndi fram á að karlar væru hæfari til að ala upp börn en konur vegna þess að karlar hefðu meiri tekjur! Ójafnrétti í launamálum er samkvæmt því helsti kostur karlmanna í forræðismálum.

Um tíma fylgdist ég með umræðum á heimasíðu félags ábyrgra feðra, en nú er langt síðan henni var lokað nema fyrir þeim sem greiddu félagsgjöld. Umræðan þar var þá með slíkum hætti að það var félaginu síst til framdráttar, svo ég er ekki hissa að þeir vildu ekki að aðrir læsu kvenfyrirlitninguna sem þar óð uppi. Þar voru t.d. umræður um hvort konur mættu fara í fóstureyðingu án leyfis karla og hvort karlmenn ættu ekki að mega neita að borga meðlög með börnum sem þeir hefðu ekki getið viljandi, en peningamálin brunnu iðulega heitast á mönnum.

Nú siglir semsagt þessi félagsskapur undir merkjum jafnréttis. Vart er hægt að hugsa sér meiri öfugmæli.

__
* Á ráðstefnunni flutti forseti Íslands ávarp, félagsmálaráðherra talaði og tveir varaþingmenn. Þetta hljómaði semsagt allt mjög vel - í auglýsingunni.

Efnisorð: , , ,