fimmtudagur, desember 27, 2007

Áhyggjulaus svefn

Vegna þess að ég var nú aðeins að hnýta í moggabloggið þá þarf ég líklega að ræða eitt af því sem fer einna mest í taugarnar á moggabloggurum en það er nafnlaus blogg. Öfugt við það sem þau halda, þá hefur aldrei verið talin siðferðileg skylda að blogga undir fullu nafni. Fjölmörg þeirra sem blogga erlendis búa í samfélagi þar sem skoðanir þeirra eru svo óvinsælar að þau gætu átt á hættu að missa vinnuna, fá ekki vinnu eða vera ofsótt af stjórnvöldum ef upp kæmist hver skrifar. Ófá eru einnig hrædd um öryggi sitt, t.d. í landi þar sem morð eru tíð og byssueign mikil, þar er ekki endilega óhætt að segja hvað sem er um nágranna sinn á blogginu. Sú krafa sem veður uppi á þessum nýja íslenska bloggvettvangi, að allir skrifi undir nafni hljómar því fáránlega í mínum eyrum.

Vissulega er hægt að segja mun svæsnari hluti þegar hvorki fylgir nafn né mynd en nýleg dæmi sanna að sumir þjóðþekktir bloggarar eru nógu mikil fífl til að hóta fólki á bloggi sínu, auk þess sem nú hefur sannast að hægt er að framvísa kennitölu hvers sem er þegar blogg er stofnað á moggablogginu (þannig mun forsetinn vera skráður fyrir einu blogginu). Það að gefa upp nafn segir því ekki alla söguna.

Um tíma gældi ég við það að nota nafnleysi mitt hér til að afhjúpa nöfn karla sem nauðga, karla sem ég veit að hafa nauðgað en hafa ekki verið dregnir fyrir dómstóla. Ég veit nöfn allnokkurra slíkra. En eftir því sem tímar líða finnst mér ólíklegra að ég láti það eftir mér. Og sannast sagna hef ég ekkert sagt hér sem ég myndi ekki þora að segja opinberlega. Hinsvegar langar mig ekki til að nafn mitt lendi á lista yfir konur sem eiga refsingu skilda að mati ógeða þessa lands, né eiga á hættu að fá símtöl frá slíku hyski eða heimsóknir. Nafnleysi getur líka verið nauðsynlegt.

Efnisorð: ,