sunnudagur, janúar 27, 2008

Að leysa lífsgátur eða grilla og græða

Í sjónvarpsþætti* setti besti vinur aðal, sem einnig gengur undir nafninu Hannes Hólmsteinn, fram eftirfarandi skilgreiningu á Sjálfstæðismönnum:

„Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt.
Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin.
Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir.
Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.“

Þetta hefði þótt kvikindislegt ef einhver okkar afturhaldskommatittanna hefði sagt þetta. Sjálf er ég þó ekki í vafa í hvorum hópnum ég vildi vera, þeim sem grillar og græðir eða þeim sem heldur að hægt sé að leysa lífsgátur (án þess þó að ég haldi að það sé það sem sameinar vinstrimenn, frekar myndi ég segja að það væri fólk sem hefði áhuga á að öllum í samfélaginu farnist sem best, en kannski er það gáta lífsins í hugum HHG hvernig hægt sé að langa til þess).

--
*Einhver ágæt kona [Lára Hanna] skrifaði niður eftir Hannesi en ég stel hiklaust af bloggi hennar.

Viðbót, skrifuð í lok október 2008: Í fyrra myndbandinu í þessari færslu Láru Hönnu má sjá brot úr viðtalinu við HHG.

Efnisorð: