laugardagur, janúar 26, 2008

Verðlaunasætið

Þó mér lítist ekki á fleiri stólaskipti á þessu kjörtímabili þá vil ég ekki að þessi borgarstjórn verði langlíf.* Ég vil ekki mislæg gatnamót á Miklubraut/Kringlumýrarbraut en þó hef ég enn sterkari skoðun á flugvellinum: Hann á að fara burt og ekki bruðla með peninga í að byggja nýjan heldur flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

Það er auðvitað fáránlegt að Ólafur F. Magnússon sé orðinn borgarstjóri** enda þótt við höfum setið uppi með Halldór Ásgrímsson sem forsætisráðherra eftir svipaða samninga. Halldór var líka nánast fylgislaus en hann fékk að verða forsætisráðherra til að Sjálfstæðisflokkurinn gæti myndað ríkisstjórn. Og þó ég muni ekki hvort einhver sagði það orðrétt en þá virtist ríkja sú stemning að Halldór ætti þetta skilið eftir langan feril á þingi, svipað og Vihjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði um Ólaf, að hann langaði auðvitað að spreyta sig á þessu embætti. Venjulegum kjósanda sundlar þegar ráðamenn tala um æðstu embætti sem þau séu eitthvað sem menn eigi að fá að prófa því það sé svo spennandi.

En talandi um Framsóknarflokkinn, þá er það eina góða í þessu öllu saman að nú er Framsóknarflokkurinn hvorki við völd í höfuðborginni né í ríkisstjórn, og man ég ekki eftir öðru eins. Megi þetta ástand vara sem lengst og helvítis Framsóknarflokkurinn þurrkast út.

--
*Ég fór ekki á pallana til að mótmæla nýja meirihlutanum en hefði gjarnan viljað vera þar. Helvíti skítt samt að öll umræðan snúist um skrílslæti og að þar hafi eingöngu menntaskólanemar og ungliðar stjórnmálaflokkanna verið að verki. Þau höfðu kannski hæst en ég sá nú ýmis andlit þarna sem flokkast undir hvorugt.

** Það er ekki skrítið að fólk velti fyrir sér heilsufari Ólafs uppá það að gera hvort hann þurfi varamann – sem hann hefur ekki – en að gefa í skyn að hann sé geðveikur og að það sé fyndið eða niðurlægjandi eru verulega ósmekklegar dylgjur og fór t.d. Spaugstofan langt yfir strikið í þættinum í kvöld.

Efnisorð: