sunnudagur, mars 23, 2008

Helgar tíðir og neysluhyggja Satans

Fyrir nokkrum árum lagðist ég í kvefpest mikla sem rændi mig næstum allri lífslöngun. Þó reis ég úr rekkju einn daginn og langaði þessi ósköp í hrökkbrauð, en matarlyst hafði ég ekki haft fram að því. Auk þess vantaði mig tilfinnanlega snýtubréf en nokkrar ekrur af skóglendi Finnlands höfðu verið rýmdar til snýtubréfagerðar mín vegna. Ég klæddi mig því hlýlega og barðist út fyrir veggi heimilisins til að kaupa þessar nauðsynjar. En þegar ég kom að dyrum matvöruverslunar sem ég þóttist vita að væri opin* hafði henni verið lokað skömmu áður með lögregluvaldi enda páskar og bannað að selja neitt meðan óvíst væri hvort Jesú kæmist úr gröfinni.

Í fjölmiðlum mátti svo lengi á eftir heyra biskupsdrusluna grenja yfir kaupæðinu og allri þessari skelfilegu neysluhyggju sem ræki fólk til að vilja versla á páskum. Mikið held ég að hann hefði verið glaður ef hann hefði vitað að þessi ráðstöfun hafi forðað mér frá hrökkbrauðsáti (og öllu öðru áti því ég hafði ekki lyst á neinu öðru og át því ekkert í staðinn) og snýtingum í sérgerðan pappír. Hrifningin er hinsvegar ekki gagnkvæm.

Síðan þá hef ég litið hrökkbrauð og snýtuklúta hornauga enda óviss um hvort þetta séu sendingar frá Satani sjálfum eða bara birtingarmyndir firringar nútímamannsins.

--
* Nú virðist þessi verslun vera opin alla páskana, ef marka má auglýsingar. Þar versla ég þó ekki lengur, sama hvaða krankleikar hrjá mig, sbr. færslu mina um fyrirtæki sem ég sniðgeng. Hefur semsagt ekkert með biskupinn að gera.

Viðbót: Ármann Jakobsson skrifaði um sama efni á Múrinn og gerir sérstaklega að umtalsefni hvernig málið snúi við trúlausu fólki. Þar segir hann að lokunin hafi verið um hvítasunnuna. Það er líklega rétt hjá honum (það eru meiri líkur á að ég hefði áttað mig á að verslanir væru lokaðar um páska. Hvítasunnuna skil ég aldrei og man ekki eftir henni) nema lögreglan hafi lokað versluninni oftar en einu sinni með valdi.

Efnisorð: