föstudagur, febrúar 29, 2008

Börn eru mikils virði, líka eftir 18 ára aldur

Þegar vannærð börn í Afríku eru sýnd í fjölmiðlum er aldrei sagt hve mörg þeirra finna raunverulega til hungurs. Þó er það þannig að þegar fólk hefur ekki borðað í langan tíma hættir það að finna til hungurs, heldur líður bara ágætlega þó það sé orkulítið.

Hvernig ætli okkur yrði við ef sjónvarpsfréttamaður segði eitthvað um að í þessu Afríkuríki hefði orðið uppskerubrestur með þeim afleiðingum að nú ríkti þar hungursneyð og að börnin í bakgrunni myndar (augljóslega vannærð) biðu nú eftir matarsendingum – en þau væru ekki öll svöng. Og svo talaði hann fjálglega um hvað sumum þeirra væri alveg sama þó þau fengju ekkert að borða (vegna máttleysis getur mjög vannært fólk ekki borið sig eftir mat). Þegar sjónvarpáhorfendur væru svo búnir að smjatta á þessu góða stund gætu þeir sagt við hvern annan: Já, ég vissi það alltaf. Það eru alveg fullt af börnunum þarna sem eru bara ekkert að spá í mat. Þeim finnst þetta bara allt í lagi. Sko þau!

Aðrir myndu gúggla tölulegum staðreyndum um hungur og vannæringu og komast að því að á þessu stigi málsins væri ekki hægt að sanna með óyggjandi hætti að 5-10% barnanna finndu ekki til hungurs, en myndu samt vilja að vestrænar þjóðir héldu áfram að berjast gegn vannæringu. En þeir sem væru öðruvísi innrættir gætu einblínt á 5-10% og viljað stoppa allt hjálparstarf.

En þetta er nú bara bull í mér. Svona mundi enginn segja. Nema náttúrulega þegar talað er um vændi. Þá er alltaf reynt að finna til einhverja vændiskonu sem segist bara hafa gaman að þessu og ekkert hafa neitt slæmt um starf sitt að segja. Og svo er talað um hamingjusömu vændiskonurnar sem séu a.m.k. 5 % (eða eitthvað álíka)* og það megi engin lög og reglur – hvað þá einhver siðaboðskapur – vinna gegn heilögum rétti þeirra til að vera hamingjusamar í þessu göfuga starfi.

Við fyllumst verndartilfinningu þegar við sjáum börn á skjánum, hvað þá vannærð. Þá viljum við taka upp budduna eða ættleiða eða bara eitthvað, eitthvað til að láta okkur líða betur og helst börnunum líka.

Konur vekja ekki þessa tilfinningu. Nei, ég er ekki að segja að við eigum að fara með konur eins og börn, ég er að segja að eftir 18 ára aldur er saklausa barnið sem allir vilja vernda orðið að konu og þá er öllum sama um hvernig henni líður og hvað verður um hana. Konur frá vanþróuðum löndum eru seldar í stórum stíl til Vesturlanda, þar sem þær eru kynlífsþrælar. Þeim mönnum sem kaupa sér aðgang að þeim er alveg sama um það. Kannski vöknar sumum þeirra um augu þegar þeir sjá vannærð börn í sjónvarpinu (líklega þó ekki) – en fullorðna konu vilja þeir nota í annað en komast í samband við tilfinningar sínar.

Flestir þeirra sem nota vændiskonur þræta fyrir að hafa komist í tæri við konur sem eru í vændi vegna mansals. Enda allar vændiskonurnar sem þeir nota bara mjög happí með viðskiptin sko, gáfu vel í skyn að þeir væru stórkostlegir elskhugar og svona. Augljóslega ánægðar í starfi, bara alveg fullnægðar sko, stelpurnar.

Og vei þeim sem bendir á annað.

--
[Viðvörun: hér á eftir eru lýsingar sem geta hrundið af stað óþægilegum hugrenningum]

* 95% allra þeirra kvenna í klámiðnaðinum (vændi, klámi og strippi, hafa orðið fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis í æsku. (Fórnarlömb mansals voru ekki með í þeim rannsóknum sem leiddu þetta í ljós). Auk þess er stór hluti þeirrra sem eru í klámiðnaðinum notendur fíkniefna og fjármagna neysluna með því að selja aðgang að líkama sínum. Það eru því fáar konur sem hefja störf í klámiðnaðinum án þess að hafa sögu um kynferðislegt ofbeldi og fíkniefnamisnotkun að baki. Þær konur sem hefja störf í klámiðnaðinum og hafa enga slíka sögu lenda eins og hinar oft í mjög ógeðfelldum aðstæðum með mjög ógeðfelldum mönnum; fleiri vændiskonum en öðrum konum er nauðgað. Þegar upp er staðið og starfið lagt á hilluna (þær sem lifa svo lengi) – hversu hamingjusamar verða þær til æviloka? Munu þær lifa ánægjulegu kynlífi á jafnréttisgrundvelli með maka sínum? Munu þær yfirhöfuð hafa áhuga á karlmönnum eftir að hafa orðið fyrir barðinu á þeim og séð allt það sem þeir gera við konur?

Í rannsókn, sem ég mun fjalla nánar um síðar (og hef svosem áður vísað lauslega í), vildu 89% hætta að vinna í vændi en höfðu engin önnur úrræði sér til framfærslu. En allar hljóta þær að hafa ljómað af hamingju. Eða að minnsta kosti ein, þannig er það alltaf. Ein konan í rannsókninni (bandarísk kona sem bæði strippaði og seldi sig á götunum, gegnum fylgdarþjónustur og nuddstofur) hafði verið brennd með sígarettum, stungin með hníf, barin margoft, þaraf eitt skipti fór hún úr kjálkalið og hljóðhimna sprakk. Hún var hárreitt – bæði til að kvelja hana en líka til að sýna henni hver valdið hefði og sæði sprautað í andlit hennar til að niðurlægja hana. Megninu af hinu - klípunum í brjóst og klof þegar hún var að strippa og svo munnsöfnuðinum sem hafður var við hana - tók hún með uppgerðarbrosi. Og þá hafa kúnnarnir sannfærst að hún væri þessi hamingjusama, ekki spurning. Eða kannski hafa einhverjir þeirra karlmanna sem nauðguðu henni – en a.m.k. tuttugu menn nauðguðu henni á mismunandi tímum ævi hennar, þar af varð hún fyrir hópnauðgun – áttað sig á að hún var ekki hamingjusöm. Kannski ekki.

Efnisorð: , , , , ,