þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Konur verða aldrei öruggar fyrr en karlar hætta að nauðga

Þegar dómurinn yfir Anthony Lee Bellere er lesinn – en hann var í dag dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðganir og vörslu barnakláms – langar mig auðvitað til að leggjast í herferð til að vara ungar stelpur við að mæla sér mót við menn sem þær kynnast á msn. Mig langar að segja þeim að hressi gaurinn sem þykist vera aðeins eldri en þær (ekki gamall en nógu mikið eldri til að þeim þyki það spennandi) geti í raun verið kall en ekki strákur, og að meira segja stelpan sem verður vinkona þeirra á msn eða facebook geti verið kall sem hefur kynferðislegan áhuga á þeim og að þær megi aldrei aldrei aldrei mæla sér mót við neinn sem þær hafa kynnst á netinu og að þær eigi helst ekkert að tala við ókunnuga á netinu (og það er ekki lítið sem mig langar til að segja foreldrunum að ekkert barn undir 18 ára aldri ætti að vera með tölvu þar sem fullorðnir geta ekki fylgst með hvað þar fer fram). Mig langar til að vara þær við hryllingnum sem getur beðið þeirra ef þær láta undan forvitninni, ævintýragirninni, einmanaleikanum og þörfinni fyrir athygli og samþykkja að hitta einhvern sem þær í raun vita ekkert um annað en að hann vill hitta þær einar.

Sama hvöt grípur mig stundum þegar ég sé stelpur fullar niðrí bæ eða veit um vinkonur sem ætla á Þjóðhátíð. Mig langar að halda yfir þeim ræður: haldið hópinn, ekki drekka of mikið, ekki treysta neinum, ekki halda að strákurinn sem þú hittir fyrir 10 mínútum vilji draga þig afsíðis vegna þess að hann sé svo skotinn í þér, ekki halda verndin gegn einum strák sé að leita á náðir hóps af strákum, sama hvað þeir eru hressir.

En ég veit að þetta er heldur ekki rétta aðferðin. Því stelpur eiga ekki að þurfa að passa sig á ókunnugum, þær mega alveg trúa því að sæti strákurinn sem þær hitta á netinu hafi sama tónlistarsmekk og þær og langi til að horfa með þeim á mynd um helgina þegar foreldrar hans eru ekki heima. Þær mega fara á Þjóðhátíð og syngja og tralla inní hvaða tjaldi sem þeim dettur í hug að ramba inní.

Því það eru karlmenn sem verða að hætta að nauðga. Meðan þeir ljúga (á netinu, inná skemmtistöðum, um partý sem aldrei verður haldið) að konum og stelpum um hverjir þeir eru og hvað þeim gengur til, meðan þeir beita hótunum og ógnunum og hnefum og hrindingum, meðan þeir þröngva konum og stelpum sem vilja þá ekki eða vildu þá þar til þeim var ljóst hvað þeir ætluðu sér í raun að gera á og hvaða hátt, þá er engin kona óhult. Engin kona og engin stelpa getur varið sig fyrir þeim. Þeir eru flestir stærri og sterkari en við flestar erum, og það sem þá vantar upp á styrk sækja þeir til félaga sinna sem sjá um að halda fórnarlömbunum kjurum.

Ef karlmenn hættu að nauðga værum við óhultar. Það er eina lausnin.

Þar til þeir hætta því skiptir engu hvort þessi stelpa kemst undan, það er bara einhver önnur sem gengur í gin úlfsins, einhver önnur kona sem er dregin inní húsasund eða er króuð af inná heimili sínu af manninum sem borðar með henni sunnudagsmatinn hjá foreldrum hennar. Ein sleppur, önnur verður fórnarlamb.

En svona má auðvitað ekki segja. Loka bara allt þetta kvenfólk inni. Sumar eru þá reyndar lokaðar inni hjá þeim mönnum sem mest níðast á þeim, en það er þeirra vandamál, er það ekki?

Efnisorð: ,