mánudagur, mars 03, 2008

Feluleikur: Finnið hamingjusömu hóruna í þessum tölum

Ég eltist sjaldan við tölfræði. En hér ætla ég samt að setja fram nokkrar tölur um ofbeldi í kynlífsiðnaðinum.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvernig konur og karlmenn í kynlífsiðnaðinum upplifa starf sitt og hvernig þeim líður, andlega og líkamlega. Ég rek hér helstu niðurstöður stórrar rannsóknar sem náði til níu landa og beggja kynja (ég tiltek ekki sérstaklega niðurstöður sem varða fólk sem flokkast sem transgender, en þær eru allar á sama veg).*

Rannsóknin var þannig að talað var við 854 konur og karla (þeir voru aðeins 28 á móti 826 konum, sem ætti ekki að skekkja tölurnar, þannig að ég mun áfram tala um konur) í níu löndum (Kanada, Kólumbíu, Þýskalandi, Mexíkó, Suður-Afríku, Thailandi, Tyrklandi, Bandaríkjunum og Zambíu) og spurt um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í vændinu og áður en vændi byrjaði.

95% hafði orðið fyrir kynferðislegu áreiti (þ.m.t. stripparar, sem margir halda fram að séu aldrei í snertingu við kúnnann).

95% hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku.**
70% sögðu að það hefði beinlínis orðið til þess að þær fóru í vændið. Flestar (bandarískar) konur byrja í vændinu 13- 14 ára en meðalaldur allra þátttakenda var 19 þegar vændið byrjaði.

95% hafði orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í vændinu.
Í Hollandi höfðu 60% vændikvenna verið beittar ofbeldi.

75% hafði verið nauðgað.
Í Oregon kom í ljós að hverri vændiskonu var nauðgað einu sinni í viku að meðaltali.

75% hafði verið heimilislaus á einhverjum tímapunkti ævi sinnar (sem bendir til að vændi sé stundað vegna fjárhagslegra aðstæðna).

68% voru með einkenni áfallastreituröskunar (PTSD) (til samanburðar var tekið fram að um það bil 51% hermanna sem börðust í Víetnam greindust með áfallastreituröskun).

46% töldu ekki að öryggi þeirra myndi aukast ef vændi væri löglegt. Í Þýskalandi er vændi löglegt en þar sögðu 59% vændiskvennanna að þær teldu sig ekki öruggari fyrir nauðgunum og öðrum árásum.

--
*Þetta er semsé sama rannsóknin og ég vitnaði til í síðustu færslu.
** Ég held að ég hafi stundum notað töluna 90% í skrifum mínum en þessi rannsókn nefnir allt uppí 95% (þessi rannsókn nær ekki yfir fólk sem leikur í klámmyndum en aðrar rannsóknir sýna sömu tölur þar, og eiga þær um bæði kynin), sjálfri finnst mér það litlu skipta, heldur hitt að nánast allar konur í kynlífsiðnaðinum hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi sem börn.

Efnisorð: , , ,