fimmtudagur, október 15, 2009

Vændi er smánarblettur og skepnuskapur

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar leikdóm í Fréttablaðið í dag sem er lítið jákvæður fyrir leiksýninguna sem um ræðir. Mér er slétt sama um það enda hefði ég ekki farið á þessa sýningu. Hinsvegar segir Páll Baldvin margt skynsamlegt sem mér finnst ástæða til að birta hér:

Hin félagslega eymd margra landa Austur-Evrópu, Afríku norðanverðrar og landa Suður- og Mið-Ameríku hefur skilað bylgju eftir bylgju flóttafólks sem komist hefur norðureftir til ríkari landa þar sem þetta fólk safnast til óþrifastarfa í borgum og sveitum sem innfæddir vilja ekki sinna lengur. Í mörgum dæmum eru þetta hefðbundin störf farandverkamanna, í öðrum tilvikum er um hreint mansal að ræða, einkum á kornungum stúlkum sem eru sviknar norður eftir með loforðum um bærilegt líf og skárri kjör. Í sumum tilvikum kemst upp um glæpastarfsemina en uppljóstrun er þeim annmarka háð að fórnarlambið, niðurbrotið og smánað, er sent heim. Í öðrum tilvikum ílendast starfskraftar kynlífsiðnaðarins en halda áfram að vera í jaðri samfélagsins.

Örlög kvenna frá Eystrasaltslöndunum, Póllandi, Úkraínu, Moldavíu, Rússlandi og Balkanlöndunum gömlu hafa lengi lengi verið efniviður í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, misgrófum. Örlög Danguole frá Litháen urðu opinber þegar hún stökk fram af brú í Svíþjóð og Lukas Moodysson nýtti þau í dæmisögu um hvert hlutskipti þessara kvenna eru í Svíþjóð.

Ég á erfitt með efni sem þetta orðið: innrás glæpagengja að austan er oft notuð sem skýring á þessum smánarbletti vestrænna samfélaga, en vændishverfin í evrópskum borgum hafa um aldir verið fyllt af öreigum úr sveitum álfunnar. Það er erfiðara að finna haldbærar skýringar á þörfinni sem þessi skepnuskapur sinnir; lengi töldu menn skort á almennilegum getnaðarvörnum skýringu á því að karlmenn af öllum stigum sæktu sér kynferðislega fróun í hórukassa álfunnar. En sú skýring er ekki haldbær lengur. Víða er kynlífsiðnaðurinn inngróinn í borgarmenninguna og þrífst fyrir opnum augum stjórnvalda. Þannig er það hér.

... við látum þetta líðast hér og erum svo hræsnisfull að horfa upp á svívirðinguna á sviði frekar en stoppa hana af með aðgerðum. Þessar konur eru efnahagslegir flóttamenn, rétt eins og hámenntaðir starfsmenn ræstingafyrirtækjanna sem hér starfa.

Gernýting saklauss fólks, ævi þeirra og líkama, er virkur og verndaður hluti af efnahagskerfi heimsins, okkar heims. Menn geta sagt að sú saga sem [leikhöfundur] reynir að segja þurfi sífellda upprifjun, en það er til marks um að við neitum staðreyndum, eins og okkur virðist henta mikið um þessar mundir. Og maður skammast sín.


Efist enn einhver um að mansal sé stundað á Íslandi þá er hrollvekjandi frétt á öllum vefmiðlum í dag. Án þess að hér séu öll kurl komin til grafar þá virðist sem kona sem selja átti í kynlífsánauð á Íslandi hafi reynt að vekja athygli á því í flugvélinni á leiðinni til landsins eða hreinlega misst stjórn á sér af ótta við það sem biði hennar. Hún hafi þannig komist í hendur yfirvalda en virðist hafa verið rænt úti á götu. Hennar er nú leitað af lögreglu en hafi hún ekki nú þegar lent í höndum dólganna sem ætluðu að gera hana út, þá eru þeir sennilega líka að leita að henni.

Úff.

Efnisorð: , ,