mánudagur, september 14, 2009

Tilefnislausar kærur ... karla

Ef ég drægi nú þá ályktun — eftir að hafa lesið frétt sem hljómar svona: „Karlmaður á tvítugsaldri laug að lögreglu þegar hann sagði tvo menn hafa ráðist á sig“ — að allt þetta meinta ofbeldi sem karlmenn segjast verða fyrir, það er bara lygi og uppspuni. Þeir veita sér alltaf áverkana sjálfir og ljúga svo uppá blásaklausa karlmenn. Þætti það þá ekki sérkennileg staðhæfing? Samt virðist sem margir álykti um leið og þeir heyra um konu sem tilkynnir nauðgun til lögreglu (hvað þá ef hún kærir ekki heldur bara segir vinum og ættingjum) að hún hafi verið að ljúga. En það má auðvitað ekkert alhæfa svona um karlmenn, bara um konur.

Konur ljúga alltaf að þeim hafi verið nauðgað, yfirleitt bara vegna þess að þær eru með móral eða vilja hefna sín á góðum piltum en karlmenn ljúga auðvitað aldrei neinu þegar þeir segjast hafa orðið fórnarlömb glæpa.

Sannleikurinn er sá að í örfáum tilvikum bera konur fram kæru um nauðgun að ástæðulausu.* Sama prósentutala (1-2%) á við um tryggingasvik, aðrar ofbeldiskærur og flesta þá glæpi sem hægt er að ljúga til um. Og í þeim efnum eru karlmenn engir eftirbátar kvenna, nema síður sé. Það virðist skipta miklu af hvaða kyni einstaklingar eru — ef það eru konur — sé eitthvað ekki í lagi. Ef karlmenn gera það sama þá eru það einstaklingar sem bregðast eða eru eitthvað bilaðir.

Þannig ályktar fólk að:
- Kona sem keyrir illa = allar konur eru lélegir bílstjórar
- Kona sem ber rangar sakir á karlmann = allar konur ljúga til um nauðganir
- Kona sem er ekki sérlega vel gefin, eða er skeytingarlaus um tilfinningar annarra = allar konur eru heimskar tíkur

- Karlmaður sem keyrir illa = lélegur bílstjóri
- Karlmaður sem segir að ráðist hafi verið á hann = undantekning
- Karlmaður (margir karlmenn) sem einn aðal gerandi í bankahruni = kemur kyni hans ekkert við
- Karlmenn eru gerendur í ofbeldismálum og nauðgunum í 98% tilvika = djöfuls áróður er þetta á karlmenn alla tíð hjá þessum helvítis feministum!

Sumir karlmenn bera fram tilefnislausar kærur, en það er sjaldgæft. Sumar konur bera fram tilefnislausar kærur, en það er sjaldgæft. Reglan ætti því að vera að reikna alltaf með að rétt sé sagt frá.

___
* Í bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, Á mannamáli, kemur fram að 1-2% mála sem berast til Neyðarmóttöku vegna nauðgana eru byggð á fölskum grunni. Skv. erlendum heimildum er innan við tvö prósent allra nauðganakæra á röngum rökum reistar, eða sama hlutfall og í öðrum glæpaflokkum.

Efnisorð: , ,