sunnudagur, september 13, 2009

Nafnleysi af nauðsyn

Ég er búin að skemmta mér talsvert yfir þessari umræðu um nafnlaus blogg, sem enn einu sinni er orðið að stórkostlegu vandamáli að sumra mati. Mest auðvitað í augum þeirra sem er verið að gagnrýna.* Þarf varla að taka það fram að ég er hlynnt nafnleysisbloggum og finnst þau ekkert síðri en þar sem fólk merkir sig með nafni og mynd; stundum segir það mér ekkert hvorteðer og stundum fælir það mig bara frá og ég myndi e.t.v. missa af frábærum lestri ef ég vissi hver stæði á bak við skrifin.

Sjálf kaus ég strax að skrifa nafnlaust því að ég vissi að helstu umfjöllunarefni mín væru ekki vinsæl meðal ákveðins hóps og hef aðeins styrkst í þeirri skoðun minni. Meginuppistaðan í bloggskrifum mínum hefur verið feminismi og veit ég vel að „þvílíkur öfgafeminismi“ kallar fram ógeðið í sumum karlmönnum og nafngreindir bloggarar eins og Sóley Tómasdóttir hafa fengið að kenna á því. Þegar allt það fár í kringum Sóleyju stóð sem hæst þakkaði ég mínum sæla** fyrir að hvergi væri hægt að tengja nafn mitt við skrifin hérna. Eins og dæmin sanna*** hefur beinlínis verið ráðist á bloggara og eigur þeirra og ég fyrir mitt leyti er of lífhrædd til að vilja lifa við slíkar ógnir.

Og nú, í kjölfar bankahrunsins, hefur nafnleysið komið sér vel fyrir margt fólk sem hefur getað ljóstrað upp um ýmislegt sem það hefur ekki stöðu sinnar vegna getað sagt undir nafni, hvort það er á eigin bloggi eða með athugasemdum við annarra blogg. Sjálf hef ég getað fengið útrás fyrir hatur mitt á auðjöfrum, Sjálfstæðismönnum, Frjálshyggjupakki og öðrum gróðapungum, án þess að eiga á hættu að fólk sem ég kannast við innan þessara hópa — eða sem ég gæti þurft að eiga samskipti við í framtíðinni — geti notað það gegn mér á nokkurn hátt.**** Og það er auðvitað stór partur af þessu; í svo litlu samfélagi erum við ekki bara skyld og tengd og þekkjumst fyrir, heldur getum við átt á hættu að einhver þeirra sem hefur ömurlegar stjórnmálaskoðanir, fortíð í fjármálum eða andstyggilegar skoðanir á konum, verði ákkúrat sá aðili sem situr við næsta borð í kaffitímanum á nýja vinnustaðnum, sé í nefnd sem eigi að meta störf okkar, flytji í næsta hús eða afgreiði okkur í verslun.

Þá er ekki betra að hafa alltaf haldið kjafti, heldur að geta — í skjóli nafnleysis netsins — umgengist viðkomandi upp að því marki sem nauðsynlegt er til að lifa af í þessu samfélagi.

___
* Svo eru sumir — útrásarvíkingar og Sjálfstæðismenn fremstir í flokki frjálshyggjusnúða og annarra gróðapunga — líka að kvarta undan gagnrýni sem sett er fram undir nafni. Ekkert má nú. Reyndar myndi ég líka líta á það sem meiðyrði ef einhver kallaði mig Sjálfstæðismann.
** Það er auðvitað enginn minn sæli sem ég þakka heldur mín sæla Salander.
*** Ég veit ekki hversu langt var gengið gagnvart Sóleyju, utan þess að ég veit að henni var hótað á netinu. Ég hef ekki einu sinni athugasemdakerfið opið og slepp því alveg við að heyra skoðanir kvenhatara á mér.
**** Ég hafði gagnrýnt þetta hyski fyrir fall bankanna, sannarlega var ég ekki í klappliðinu fram að því, En eins og bloggarinn AK-72 skrifar (og Lára Hanna birtir) þá ríkti hér þannig andrúmsloft að það var varla óhætt að láta andúð sína á gróðaöflunum í ljós. Þetta rekur hinn fyrrum nafnlausi bloggari ágætlega, en minnist þó hvergi á feminista.

Efnisorð: , , ,