sunnudagur, ágúst 30, 2009

Ekki bara hægt að kjósa nei

Nú er biðlað til Ólafs Ragnars Grímssonar um að skrifa ekki undir lög um ríkisábyrgð á Icesave með það að markmiði að þá fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Ég velti fyrir mér hvað fólk haldi að standa muni á kjörseðlinum?

Viltu borga Icesave skuldir Landsbankans, krossaðu við:

Já.
Já endilega — má ég borga snekkjur og einkaþotur fyrir Bjöggana líka?
Þvert nei.


Þó það væri bara einfalt já eða nei yrði svar þjóðarinnar auðvitað nei. Líklega 100% samtaka í því.

Kannski yrði textinn á kjörseðlinum á þessa lund.

Veljið annan hvorn kostinn:

A) Viltu að Icesave samkomulagið gildi, með þessum fyrirvörum sem þegar hafa verið settir og þjóðin gangist undir að borga skuldir Landsbankans vegna Icesave?

B) Viltu hafna alfarið ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, leggja í löng málaferli við tvær erlendar þjóðir sem gæti haft þær afleiðingar að íslenska þjóðin sitji uppi ekki bara með skuldirnar heldur verri afborgunarskilmála en hingað til hefur verið samið um, auk þess sem meðan á málaferlum stendur gæti íslenska þjóðin lent í einangrun á erlendum vettvangi með enn takmarkaðri aðgangi að erlendu fjármagni sem leitt getur til vöruskorts og algerrar stöðnunar?


Hvernig myndi fólk nú krossa við? (Kannski eins og stjórnmálaflokkurinn þess segir því.)

Málið er að fólk vill ekki skoða málið útfrá þessum tveimur vondu valkostum. Það vill bara ekki borga. Og auðvitað viljum við ekkert borga, við eigum bara ekkert val.

Og hvað ef spurningin yrði einhver enn önnur? Þau sem núna fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu virðast viss um hvað í henni muni felast (að við losnum við að borga Icesave) en við vitum það ekki í raun.

Ég hef auðvitað ekkert á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, en ég er sammála Láru Hönnu um að almenningur er ekki nógu upplýstur í þessu máli né neinu öðru. Ef það hefði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB í sumar, eins og sumir vildu (þá hefði ég kosið gegn viðræðunum) útfrá hverju hefði fólk ætlað að taka ákvörðun? Því sem það les og sér í miðlum Jón Ásgeirs - Fréttablaðinu, Stöð 2 og Bylgjunni? Þar er áróður fyrir því að ganga í ESB. Eða hefði það ætlað það að kynna sér málin á síðum Moggans, málgagni kvótaeigenda sem mega ekki til þess hugsa að ganga í ESB? Eða myndi fólk hunsa miðla í einkaeign og hlusta bara og horfa á RÚV og Sjónvarpið og ímynda sér að þar sé algerlega hlutlaus umfjöllun?

Það er ekki vegna þess að almenningur sé svo heimskur heldur vegna þess — eins og Lára Hanna bendir á — umræðan er svo vanþroskuð. Við getum ekki tekið upplýsta ákvörðun núna, ekki um ESB, ekki um Icesave. Látum fólkið sem við „tókum upplýsta ákvörðun“ um að kjósa til þings* sjá um þessi mál. Okkar tími kemur vonandi síðar.


___
* Stuðningur almennings við Sjálfstæðisflokks í kosningum og skoðanakönnunum sýnir ágætlega hversu vel við erum upplýst sem þjóð.

Efnisorð: , ,