föstudagur, ágúst 28, 2009

Karlar sem hata konur

Nei, þetta er ekki færsla um hina stórgóðu bók Stieg Larsson með sama titli. Heldur hugleiðingar mínar um nauðgarann og ofbeldismanninn sem fékk átta ára fangelsisdóm en hefur síðan gengið laus. Hann er greinilega karl sem hatar konur. Og ekki einn um það.

Í júlí féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli gegn karlmanni sem beitt hafði sambýliskonu sína ofbeldi árum saman og neytt hana til kynmaka með ókunnugum karlmönnum. Ég ætlaði þá að skrifa hugleiðingar mínar um það mál en týndi uppkastinu sem ég fann svo ekki aftur þrátt fyrir nokkra leit. Nú finn ég mig knúna til að skrifa um málið, ekki bara vegna þess að ég fann loksins punktana mína, heldur vegna þess að sambýliskona mannsins, þ.e. konan sem beitt var ofbeldinu, gekk fram fyrir skjöldu og leyfði birtingu á nafni ofbeldismannsins (reyndar mátti öllum sem til þekktu vera ljóst um hvaða fólk var að ræða því það var illa dulið í dómnum þar sem starfsferill hennar var tíundaður).

Nöfn ofbeldismanna, nauðgara og barnaníðinga eru yfirleitt ekki birt í dómum eða fjölmiðlum, þegar um er að ræða atburði sem eiga sér stað innan fjölskyldna eða gagnvart nátengdu fólki. Með því að birta nafn ofbeldismannsins, nauðgarans eða barnaníðingsins er þá nefnilega líka verið að afhjúpa hver þolandinn í málinu er. Eflaust er einhverjum þolendum sama en reglan er sú að hlífa þeim við því að lenda þannig milli tannanna á fólki; fólk er nefnilega afar misjafnt og kennir jafnvel fórnarlömbum um glæpina sem þeir verða fyrir. En í DV í dag kemur semsagt nafn ofbeldismannsins fram og birt er mynd af honum til áréttingar. Það hefur nefnilega sést (iðulega) til hans á öldurhúsum Reykjavíkur þar sem hann virðist skemmta sér vel. Það vill auðvitað engin vita til þess að einhver kona lendi í klónum á honum og því er nafn hans og mynd birt öllum konum til viðvörunar.


Nauðgarinn og ofbeldismaðurinn Bjarki Már Magnússon

Glæpir hans gegn sambýliskonunni eru margvíslegir og snerust um að ná valdi yfir henni, kúga hana undir sig, gera hana félagslega einangraða og beita hana líkamlegu ofbeldi — allt klassísk einkenni heimilisofbeldis. Að auki beitti hann hana kynferðislegu ofbeldi (sem oftar en ekki fylgir heimilisofbeldi, menn sem beita slíku kippa sér lítið upp við að þvinga konur til kynmaka; en auk þess vitnaði hún um að hann hefði líklega níðst á dóttur sinni — en hann skrifaði víst greinar í blöð á vegum Ábyrgra feðra) og neyddi hana til að stunda kynlíf með fjölmörgum bláókunnugum karlmönnum. Sjálfur horfði hann á auk þess að taka þátt í þessum skipulögðu nauðgunum og tók athafnirnar upp. Léti konan í ljós að hún væri þessu mótfallin var hún barin, léti hún undan sýndi hann á sér sparihliðina, þessa sem hann sýndi útí samfélaginu þar sem hann stundaði störf á opinberum vettvangi, skrifaði greinar og virkaði fínn pappír. En mig langaði reyndar ekki að rekja allt þetta hrikalega mál í neinum smáatriðum, þau sem treysta sér til þess geta lesið dóminn.

Degi áður en dómur féll í héraði (en honum var áfrýjað til Hæstaréttar sem ekki hefur enn dæmt í málinu og á meðan gengur kvikindið laust) upphófst mikil umræða í bloggheimum (lesist: á moggablogginu). Tilefnið var frétt um niðurstöður íslenskrar rannsóknar á ofbeldi gegn konum. Þar kom fram að 18,2% af þeim konum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi af hálfu maka síns, 3,3% líkamlegu og 1,3% höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Það eitt, að fréttin um þessa rannsókn og helstu niðurstöður hennar, var birt virtist trylla allmarga bloggara. Þeir geystust fram á ritvöllinn og heimtuðu að það yrði fjallað um ofbeldi sem karlar yrðu fyrir af hálfu kvenna, sem að þeirra sögn er gríðarlega víðtækt vandamál og gott ef ekki mun verra en það sem þessar kvensniftir væru að væla yfir. Við þetta var svo hnýtt grínaktugum athugasemdum (enda virtist bloggurunum þykja ofbeldi gegn konum hlægilegt) og orðatiltækjum eins og „sjaldan veldur annar er tveir deila.“ Og svo var auðvitað klykkt út með að segja að konur eigi bara að fara ef mennirnir þeirra séu vondir við þær, nokkuð sem sýnir algert skilningsleysi á heimilisofbeldi og hvernig þolandi er markvisst brotinn niður andlega af ofbeldismanninum. Ég set ekki tengla inná þessa umræðu, hún fór m.a. fram á þeim bloggum sem sjást við hlið fréttarinnar á mbl.is.

Þetta var semsagt daginn áður en dómur féll, og líklega leið enn dagur þar til fréttamiðlar fjölluðu um dóminn. Hvernig varð þessu fólki við, þessu hyski sem þótti ofbeldi gegn konum A) fyndið, B) ekki þess virði að ræða það heldur notaði niðurstöður rannsóknarinnar eingöngu til þess að heimta rannsóknir á ofbeldi sem karlar verða fyrir. Ekki veit ég það, því enginn þeirra sá ástæðu til að fjalla um dómsmálið. Létu eins og það hefði ekki gerst.

Annar hópur sem ég hefði viljað heyra tjá sig um dóminn er sá sem hefur haldið því fram að konur taki sjálfviljugar þátt í klámmyndagerð, þessari sem gerð er með sölu og dreifingu í huga fyrst og fremst en líka þessu sem er notað „til heimabrúks.“ Það ganga alltaf sögur um konur sem auglýsi á einkamálasíðum um að þær vilji endilega kynlíf með fleirum karlmönnum en eiginmanninum en hann hann vilji reyndar ólmur horfa á. Aldrei hef ég heyrt neinn efast um þessar meintu hvatir kvennanna, heldur hef ég aðeins heyrt þetta sem dæmi um að konur séu æstar í að stunda kynlíf með mörgum og helst vilji þær áhorfendur. Engan veit ég hafa sagt eftir að hafa heyrt um dóminn að þeir þurfi að taka þessa skoðun sína til athugunar, að það geti verið að einhverjar þessara kvenna vilji í raun allsekki taka þátt í slíku, heldur sé eiginmaðurinn aðalhvatamaður auglýsingarinnar og etji konunni til þessa verknaðar með bláókunnugum mönnum — ef ekki beinlínis neyði hana til þess. Svo ekki sé nú minnst á í hve mörgum tilvikum er bara ekkert um hjón að ræða heldur vændiskonu og dólginn sem stjórnar henni.

Í þeim tilvikum sem tilgreind eru í dómnum auglýsti karlmaðurinn eftir öðrum karlmönnum til að stunda kynlíf með konu sinni, en í hennar nafni. Engum sögum fer af því hvort mennirnir sem svöruðu auglýsingunni voru krafðir um gjald fyrir þátttökuna, líklega ekki. En þótt peningar hafi ekki skipt um hendur, hvað er það annað en vændi þegar maður framselur konu sína með þessum hætti í hendur annarra karla? Þetta var sannarlega ekki gert með hennar vilja, eins og flestir karlmannanna áttuðu sig á, samt létu flestir þeirra slag standa og héldu áfram eins og ekkert hefði í skorist. Konan þó jafnvel grátandi. Þeir hljóta að hafa gert sér grein fyrir að það var eiginmaðurinn sem stjórnaði atburðarrásinni, einn þeirra tók fram að maðurinn hefði greinilega stýrt þessu öllu. Skipulögð nauðgun, það er ekkert annað sem það er.

Og karlmennirnir, flestir, tóku glaðir þátt. Hvað segir það um þá? Jú, fyrir nú utan það að þeim er sama um hvort þeir séu beinlínis að nauðga konu, þá eru þeir líklegir til að hafa gert þetta áður með einhverjum hætti, t.d. með því að kaupa sér aðgang að vændiskonum. Þetta hangir allt saman; klám, nauðganir, vændi. Ekki bara í þessu hrikalega máli heldur í hugarheimi karlmanna. Karlmaður sem nauðgar fílar klám, kaupir vændi. Og svo framvegis. Þeir sem fíla klám en þykjast vera á móti nauðgunum, ja, það fer eftir því hverri er nauðgað; ef það er konan í klámmyndinni þá er þeim sama. Svona eins og karlmönnunum sem nauðguðu konunni í dómsmálinu var sama þó þeir væru myndaðir af eiginmanni hennar á meðan eða hann tæki þátt (einn varð fúll yfir því en sá ekkert athugavert við neitt annað). A.m.k. tveir þeirra tóku eftir að konunni var stjórnað, annar þeirra kom þrisvar til að nauðga konunni, hinn, tók eftir að hún grét og var með áverka eftir ofbeldi. Hvorugur lét sér til hugar koma að kæra málið til lögreglu eða koma konunni til hjálpar, enda bara einhver kona. Og konur eru nú ekki mikils virði í augum svona karlmanna.

Það er auðvitað afar sérkennilegt að þessir menn skyldu ekki ákærðir fyrir nauðgun, og að Interpol skyldi ekki vera virkjað til að hafa uppi á þeim sem myndir voru til af en ekki var vitað hvað heita. Þrír þeirra báru vitni (kallaðir C, D, og E í dómnum). En það hefur líklega þótt nóg að ná aðalgerandanum, manninum sem undanfarnar vikur hefur kneifað öl á knæpum, óáreittur. En nú vitum við þó allavega hver þetta er og getum forðast hann. Nú eða stútað honum með frjálsri aðferð. Gjöriði svo vel.


Nauðgarinn og ofbeldismaðurinn Bjarki Már Magnússon

Efnisorð: , , , ,