laugardagur, nóvember 25, 2006

Eftirsóknarverður klúbbur?

Vegna nýlegs dóms, þar sem karlmaður á þrítugsaldri var sýknaður af að hafa nauðgað fjórtán ára stúlku, hefur fólki orðið starsýnt á niðurstöðu dómsins, en þar segir: „Hér verður að líta til þess að í máli þessu er ákært fyrir nauðgun en þau brot ein, þar sem beitt er ofbeldi eða hótun um ofbeldi við að þröngva manni til samræðis, teljast nauðgun.“ Þannig að ef konunni er ekki hótað eða hún lamin – eins og í þessu tilviki – þá er allt í lagi? Öllu venjulegu fólki hlýtur að vera ljóst að ekki bregðast allar konur eins við þegar við þeim blasir staðreynd málsins; að karlmaður ætlar að þvinga þær til kynferðislegra samskipta (og þessvegna vilja feministar að lögunum verði breytt). Sumar frjósa eða lamast af hræðslu, geta jafnvel ekki kallað á hjálp þó fólk sé í heyrnarfæri. Aðrar berjast um. Engin kona getur verið viss um að hún muni bregðast ‘rétt’ við. Ef við vissum hvernig við ættum að bregðast við nauðgurum þá yrði okkur ekki nauðgað!

Ég sagði að öllu venjulegu fólki ætti að vera ljóst … Svo er þó ekki. Til eru karlmenn sem vinna mjög gegn því að allt kynferðislegt samræði án samþykkis sé álitið nauðgun. Því þá gætu allar konur sagt að þeim hafi verið nauðgað.

Í fyrsta lagi rennir mig í grun hvað menn sem svona segja hafa á samviskunni.

Í öðru lagi þá er það ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að komast í hóp þeirra kvenna sem hafa verið nauðgað. Ekki veit ég um neina konu sem er sársvekkt yfir að hafa ekki verið gestur á Stígamótum. Engin kona sem ég þekki óskar sér þess að komast í sýnistöku á Neyðarmóttökunni eða skýrslutöku hjá lögreglunni.

Kannski þekki ég bara ekki réttu konurnar. Kannski eru Stígamót með æsileg skemmtikvöld sem aðeins útvaldar (nauðgaðar) komast inná og allt til vinnandi að komast þar inn – jafnvel að ljúga óhæfuverkum uppá einhvern sakleysingjann. Eða kannski útdeilir Neyðarmóttakan VIP-pössum þannig að konur sem segja að sér hafi verið nauðgað komist fram fyrir röð við skemmtistaði. Kannski er starfræktur klúbbur þar sem konur sitja og segja skemmtilegustu lygasögurnar við dynjandi undirtektir undirförulla feminista. Ferðavinningar í boði fyrir þær sem koma alsaklausum hjartahreinum dúllustrákum bak við lás og slá. Aldrei að vita.

Efnisorð: