fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Að líta vel út nakin

Ég hef ekki séð mikið af make-over þáttunum sem nú tröllríða öllu (þættir þar sem fólki, þó aðallega konum, er breytt með aðstoð stílista, næringarfræðinga, lýtalækna, snyrtifræðinga eða öllum þessum og markmiðið að líta betur út). Þó hef ég séð How to Look Good Naked nokkrum sinnum og hann veldur mér talsverðum heilabrotum.

Í hverjum þætti af How to Look Good Naked er kona látin hátta sig þar til hún er á nærklæðum einum fata og tekin af henni mynd áður en tekin er ákvörðun um hvernig fötum hún eigi að klæðast og síðan er farið í innkaupaleiðangur. Í framhaldi af því er konan snyrt og greidd og hún síðan undir lokin látin sitja fyrir nakin. Myndinni af henni á nærfötunum og síðar nektarmyndinni er varpað á húsvegg í London og konan fær að heyra hvað vegfarendum finnst um útlit hennar. Allt virðist þetta styrkja mjög sjálfstraust konunnar enda margtekið fram að konan hafi í upphafi þáttar haft óbeit á líkama sínum en finnist nú – eftir sjálfstyrkingarmeðferðina – ekki tiltökumál að sitja fyrir nakin.

Það sem mér finnst jákvætt við þáttinn er að í honum sést svart á hvítu hve brenglaða mynd konur hafa af eigin líkama. Konunum finnst þær allar feitari og ólögulegri en þær í raun eru og þær skammast sín fyrir útlit sitt. Án efa kannast margar áhorfendur við þetta og geta borið sig saman við þessar ofurvenjulegu bresku konur sem líta hvorki betur né verr út en gerist og gengur, og átta sig þá kannski á að þær séu líka fyrst og fremst haldnar sömu sjálfsfyrirlitningu sem er reist á álíka ranghugmyndum. Og það er gott að vera bent á að venjulegar konur hafa maga, rass, læri og brjóst sem aðhyllast þyngdarlögmálið, það er nauðsynlegt mótvægi við sílikonurnar sem ber sífellt fyrir augu í öllum fjölmiðlum.

Það sem mér finnst hins vegar miður við þennan gjörning sem framkvæmdur er í þættinum, er hvernig konunni er stillt upp til að láta vega hana og meta. Athugasemdir vegfarenda um að konan sé með falleg brjóst eða sé kynþokkafull finnast mér enn ýta undir að konur séu fyrst og fremst metnar eftir útliti (og hve ríðulegar við erum) – en það er útlitsdýrkunin og óttinn við að falla ekki að stöðlum hennar sem grefur undan sjálfstrausti kvenna.

Þá er líka gefið í skyn að einungis þær konur sem eru tilbúnar að sýna ‘kvenlegan vöxt’ séu þess verðar að vera kallaðar fallegar – svo ekki sé nú talað um áhersluna á að vera falleg, eins og það sé markmið sem allar konur eigi að keppa að. En til að teljast falleg og kynþokkafull verður kona semsagt að fela keppina og sýna brjóstin og leggina. Hver er munurinn á því og skilaboðum tískublaðanna og hvernig á það að ýta undir sjálfstraust kvenna?

Það, að konan í þættinum fer í einhver tól og tæki (leðjuvafninga í grenningarskyni, brúnkumeðferð) til að líta betur út, er líka fyrst og fremst til að hvetja konur til að notfæra sér rándýrar skyndilausnir til að lappa upp á það sem þeim finnst vera slæmt útlit, en kemur fyrst og fremst þeim sem selja þá vöru til góða en ekki konunni sem eyðir tíma og peningum í eitthvað sem ekki endist.

Uppnefnin sem ýmsir líkamspartar konunnar fá frá þáttastjórnandanum eru líka óþolandi. Nánast í hvert sinn sem hann þykist vera að hrósa konum segir hann í raun eitthvað hallærislegt eða niðrandi. Ég nenni ekki að elta ólar við einstaka orð en það er eitthvað við það hvernig hann talar til kvenna sem fer verulega í mig. Eins og reyndar alltaf þegar karlmenn eru að ræða líkama kvenna.

Efnisorð: