sunnudagur, október 08, 2006

Staða konunnar

Konur eru sífellt minntar á stað sinn í samfélaginu. Á bensínstöðinni blasa klámblöðin við, líka í matvörubúðinni, illa dulin. Við eigum alltaf að muna að við erum bara klof og brjóst. Okkar eini tilgangur í lífinu er að láta ríða okkur. Skítt með að launin okkar borga bensínið og matvöruna. Skítt með að við erum persónur með skoðanir, langanir, tilfinningar. Við erum bara til að láta glápa á okkur og ríða okkur. Við megum aldrei gleyma því.

Um leið og kona varð borgarstjóri í Reykjavík spruttu upp nektardansstaðir með tilheyrandi vændi. Það var verið að minna okkur á hlutverk okkar. Við gátum verið pínulítið roggnar með að kona gegndi svo mikilvægu embætti en við áttum samt bræður, vini, eiginmenn og feður sem gláptu á kvenmannsklof ef þeir þá ekki keyptu aðgang að því, spölkorn frá Ráðhúsinu. Reglugerðir borgarinnar náðu ekki yfir starfsemina og það var ekki þrautalaust að reyna að snúa þróuninni við. Og allan tíman glöddust karlmenn, höfðu loksins konur eins og konur áttu að vera, ekki rífandi kjaft að tala um mál sem karlmenn einir hafa vit á.

Stundum er vitnað í Guðna Ágústsson og orð sem hann á að hafa látið falla um að staður konunnar sé bakvið eldavélina. Við vitum betur.

Staða konunnar er á bakinu. Útglennt.

Efnisorð: ,