laugardagur, ágúst 19, 2006

Chippendales

Nú æsir sig hver frjálshyggjumaðurinn af öðrum (á Tíkinni, Deiglunni og Heimdalli) yfir því að Femínistafélag Íslands hafi ekki mótmælt komu Chippendales til Íslands. Reyndar hefur Femínistafélagið gert það, bæði í viðtölum í fjölmiðlum en líka mun vera fyrirhuguð mótmælastaða. Þetta eru ekki leynilegar upplýsingar úr innsta hring félagsins, heldur kemur þetta fram á hverju bloggi feminista á fætur öðru auk þess sem mér skilst að fólkið sem hneykslast á „tvískinnungi feminista“, þ.e. því meinta aðgerðaleysi þeirra þegar karlmenn strippa hafi fengið tölvupósta með ábendingum um hið rétta.

Það kemur mér reyndar ekki á óvart að feministar séu vændir um tvískinnung eða að ekki sé réttum málefnum sinnt á þann hátt sem gagnrýnendum hentar – eða ekki. Helsta iðja þeirra sem hatast útí feminista er að reyna reka þær um víðan völl að gera eitthvað annað en stefnt var á í upphafi eða fá þá ofan af því að hafa yfirhöfuð stefnu og skoðanir, allt sé þetta rangt og vitlaust og tilgangslaust. Þannig eiga feministar ekki að gagnrýna launamismun eða launaleynd, klámvæðingu … æ, listinn er endalaus. Í hvert sinn sem feministar gagnrýna eitthvað er þeim sagt að það sé rangt og oft bent á í leiðinni hvað þær ættu þá frekar að gera. Geri þær það eru þær líka gagnrýndar enda mjög vinsælt að segja þeim að þær eigi að einbeita sér að einu (þá helst launamismun, af þeim sem þó viðurkenna að hann sé til staðar) eða fáum málefnum og fjarlægum (staða kvenna í Afghanistan, kynfæralimlestingar) en ekki vasast í mörgu.

Því miður er það nú svo að margt er gagnrýnivert í þjóðfélagi okkar og auðvitað öðrum löndum líka. Það er því af mörgu af taka og fjarstæðukennt að halda að sér höndum gagnvart einu málefni vegna þess að það þurfi að einbeita sér að öðru. Auk þess eru feministar sem betur fer margar og þar að auki er það sem helst brennur á hverri og einni ekki endilega það sem næsta manneskja er til í að fórna tíma sínum í, enda þó hún sjái hvað er gagnrýnivert eða óréttlátt í stöðunni. Þessvegna mæðast feministar í mörgu og það er gott.

Feministar eru þó allsekki sammála um alla hluti, frekar en annað fólk, enda ekki einsleitur hópur. Þannig finnst sumum feministum óþarfi að eyða tíma í eitthvað sem henni finnst sér eða feministum ekki koma við. Stundum spretta af þessu deilur en flestir feministar eru held ég sammála um að leyfa þeim sem vilja að stússast í því sem öðrum finnst kannski heldur léttvægt.

Sjálfri dettur mér ekki í hug að mótmæla Chippendales sýningunni. Mér finnst sú sýning svo lítið sambærileg við nektarsýningar á konum að ég get ekki með nokkru móti æst mig yfir þeim. Konur hafa verið – og eru enn – undirokaður hópur sem karlmenn hafa níðst á með ýmsum hætti. Karlar eru enn þeir sem tögl hafa og haldir í samfélaginu hér eins og reyndar allstaðar á byggðu bóli. Það, að einhverjir þeirra geri eitthvað álíka ömurlegt og konur þurfa að gera (taka þátt í vændi, klámi, strippi nú eða bara fegurðarsamkeppni) finnst mér ekki sambærilegt því staða þeirra er allt önnur. Karlar eru ekki valdalaus hópur eða umkringdir myndum af mönnum með Chippendales vaxtarlag alla daga í auglýsingum og fjölmiðlum öllum með skilaboðum um að svona og ekki öðruvísi skuli þeir vera eða þykja ókarlmannlegir ella.

Strippsjó karla fara þar að auki þannig fram að karlarnir eða karlinn, sé hann einn, finna sér yfirleitt viðfang til að hjakkast á eða leggja í gólfið og glennast yfir og ítreka þannig yfirráð sín yfir konum, meðan kvenstrippari hefur ekki nein slík völd og getur ekki notað líkamsburði sína til að svipta karlkynsáhorfendum til og frá á sviðinu. Í einhverju viðtalinu við Chippendales kom fram að þeir eru ekki allsnaktir, heldur á géstrengnum, en slíkt þykir fullmikill klæðnaður þegar konur strippa. Þær sýna áhorfendum hvern krók og kima.

Það sem er líkt með þessum nektarsýningum er líklega þá þetta: Einstaklingarnir sem taka þátt í þeim eru fólk sem á sér fárra úrkosta völ til að framfleyta sér og/eða hafa skerta sjálfsmynd sem líklega er afleiðing kynferðislegrar misnotkunar. Við bætist yfirleitt misnotkun á fíkniefnum. Slíkt er auðvitað ekkert skárra þegar karlar eiga í hlut og finnst mér full ástæða til að gagnrýna það að fólk sé sýnt á sviði með það að markmiði að gera lítið úr því, eins og nektarsýningar ganga út á. Persónulega er það þó ekki á forgangslista hjá mér að gagnrýna Chippendales, því karlar eru ekki í forgangi hjá mér enda kalla ég mig ekki jafnréttissinna heldur feminista. Í orðinu feministi er áhersla á orðið ‘femin’ en ekki á ‘karlar’.

Þessi færsla átti reyndar að vera um aðferðir and-feminista til að reyna að fá feminista ofan af flestum málefnum með því að segja þeim að snúa sér að öðru. Meira um það síðar.

Efnisorð: , , ,