fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Verslunarmannahelgin

Verslunarmannahelgin fór vel fram að mati mótshaldara víða um land. Hvers vegna fá þeir að halda þessar svokölluðu hátíðir sínar ár eftir ár? Ég veit ekki betur en hin illræmda Eldborgarhátíð hafi verið blásin af eftir eitt skipti, var það vegna þess að það var ekki virðulegt bæjarfélag eða íþróttafélag sem makaði krókinn? Í Vestmannaeyjum skiptast víst tvö íþróttafélög á um að halda Þjóðhátíð en það virðist aldrei vera nein breyting á málum þar. Endalaust verða konur fyrir árásum fyrir þá sök að vera konur.

Um nokkurra ára skeið voru Stígamótakonur með aðstöðu á Þjóðhátíð og gerðu fjölmiðlar veru þeirra ávallt nokkur skil. Sem varð til þess að almenningur allur fékk að vita – sem almenningur allur vissi svosem fyrir – að á hverri Þjóðhátíð er konum nauðgað. Þetta varð hinsvegar til þess að skyndilega þurfti ekkert á Stígamótakonum að halda í Eyjum og aðstoð þeirra var afþökkuð. Lækkaði þá auðvitað talan sem fjölmiðlar tiltóku sem tilkynnt nauðgunarmál. Það að fjöldi kvenna leitar til Stígamóta allt árið vegna þeirra árása sem þær verða fyrir um verslunarmannahelgina er ekki gert að umtalsefni, nema þegar Stígamót taka það fram.

Stígamót eru orðin ógurleg grýla hjá mótshöldurum og þeir gera allt til að koma í veg fyrir að konur geti notfært sér aðstoð þeirra á staðnum, það er ekki þeirra vandamál hvað þær gera svo seinna því þá er ekki verið að fjalla um verslunarmannahelgina sem slíka, eða þátt hinna gráðugu mótshaldara í því að stefna saman þúsundum drukkinna ungmenna á einn stað og halda þeim þar að drykkju sólarhringum saman. Fjölmiðlar eiga líka mikla sök með því að ýta undir æsinginn dögum og jafnvel vikum saman og láta sem það jaðri við föðurlandssvik ætli einhver sér ekki að liggja afvelta í tjaldi.

En ég var að tala um Stígamót. Eftir verslunarmannahelgina núna kom fram ógurlega móðguð athugasemd frá einhverjum ráðamönnum í Vestmannaeyjum þar sem þeir sögðu að það væri búið að setja upp nauðgunarteymi við heilsugæslustöðina (sjúkrahúsið?) á staðnum og þessvegna þyrftu Stígamót ekkert að koma lengur. Ekki veit ég til að nokkurstaðar hafi verið tilkynnt um þetta teymi eða þessa þjónustu fyrir verslunarmannahelgina. Og það vill svo til að það sem fólk veit ekki um, það getur það ekki notfært sér. Kannski var það tilgangurinn? Það er jú svo voða heppilegt að halda niðri tölum um tilkynntar nauðganir. Skítt með þær sem er nauðgað og vita ekki hvert þær eiga að snúa sér. Það eru allsekkert allar konur sem ætla sér að kæra nauðgarana en vilja þó gjarnan leita sér hjálpar þar sem hana er að finna. Þess áttu þær stúlkur sem voru í Eyjum um verslunarmannahelgina ekki kost. Í staðinn var hægt að segja að allt hefði farið vel fram. Æ, hvað það var nú gott.

Efnisorð: